Forystufólk í verkalýðshreyfingunni er mjög óánægt með nýtt frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra, um breytingar á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóða og ákvæðum um tilgreinda séreign. Frumvarpið var lagt fram á þingi í síðustu viku, en ekki hefur enn verið mælt fyrir því.
Drífa Snædal forseti ASÍ hefur óskað eftir fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra vegna málsins. Í samtali við Kjarnann segir hún að búið sé að vinna að málinu sem slíku í mörg ár.
Í frumvarpinu séu til dæmis ákveðnir hlutir sem stjórnvöld hétu að gera í tengslum við lífskjarasamningana frá árinu 2019. Þegar frumvarpið var lagt fram hafi verið þar líka verið nýmæli sem komu verkalýðshreyfingunni „spánskt fyrir sjónir“.
Að sögn Drífu virðist sem búið sé að „smygla ákveðnum hlutum þarna inn“ sem verkalýðshreyfingin sætti sig engan veginn við. Athugasemdum hafi hún komið á framfæri á síðasta fundi Þjóðhagsráðs, sem fram fór á miðvikudaginn í síðustu viku.
Þrjú atriði sem óánægja er með
Drífa rekur að það sem sé óánægja ríki með af hálfu ASÍ sé fyrst og fremst þrennt. Í fyrsta lagi sé verið að hækka þann aldur þegar réttindaávinnsla til ellilífeyris hefst frá 16 ára aldri og upp í 18 ára aldur. Það þýðir að 16 og 17 ára ungmenni greiði ekki í lífeyrissjóð eins og í dag og atvinnurekendur greiði þar af leiðandi heldur ekki mótframlag í lífeyrissjóði þeirra vegna. Í frumvarpi ráðherra segir að þetta sé „til samræmis við réttindaávinnslu til ellilífeyris í lögum um almannatryggingar.“
Í annan stað er stefnt að því að breyta uppfærslu á vísitölu lífeyris, þannig að lífeyrir verði einungis verðbættur einu sinni á ári, 1. janúar, en ekki í hverjum einasta mánuði. Drífa segir að ASÍ sé að reikna nákvæmlega út hvaða áhrif þetta komi til með að hafa. Í frumvarpinu segir um þetta atriði að breytt framkvæmd geti „dregið verulega úr kröfum Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslur vegna vanáætlunar á greiðslum frá lífeyrissjóðum í byrjun árs.“
Í þriðja lagi segir Drífa að ASÍ sé ekki hrifið af undanþágu sem sé tímabundið veitt frá hækkun lágmarksiðgjalda í lífeyrissjóði, sem annars er verið að lögfesta með frumvarpinu að fari úr 12 prósentum upp í 15,5 prósent. Undanþágan er veitt til bráðabirgða fyrir þá sem eru með samninga um 12 prósent iðgjöld, en þetta á fyrst og fremst á við sjómenn. Þessa undanþágu vill ASÍ ekki hafa inni.
Alvarlegt að látið sé eins og samráð hafi átt sér stað
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að meðal annars hafi verið haft samráð við aðila vinnumarkaðarins við samningu frumvarpsins.
Drífa segir að það sé „mjög alvarlegt ef það er látið líta út fyrir að þetta sé í einhverju samráði sem ekki hefur átt sér stað“ og ef verið sé að villa fyrir um þinginu með það.
Hún segir að Alþýðusambandið muni koma því skýrt á framfæri við þingheim hver afstaða þess sé. Frumvarpið verður til umræðu í lífeyrisnefnd Alþýðusambands Íslands á morgun, þriðjudag.