Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-Sif hefur verið kölluð heim úr verkefnum í Miðjarðarhafinu vegna jarðhræringanna í Bárðarbungu og hugsanlegra eldsumbrota þar. Vélin hefur sinnt landamæraeftirliti á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins, undanfarna mánuði. Skammur tími var eftir af verkefni áhafnarinnar og vélarinnar en þó var talið rétt að kalla vélina heim.
Landhelgisgæslan hefur fylgst með jöklinum úr lofti undanfarna daga og flogið með vísindamenn í þyrlum gæslunnar. Tækjabúnaður þyrlanna er hins vegar ekki eins fullkominn og búnaður TF-Sifjar. Hægt er að fylgjast með umbrotum á jörðu niðri úr nokkurri fjarlægð í flugvél gæslunnar og hentar hún því mjög vel til rannsókna á eldsumbrotum.
TF-Sif leggur af stað til Íslands í kvöld og verður komin hingað til lands á morgun.
Viðvörunarstig hækkað
Almannavarnir og Veðurstofan hafa hækkað viðvörunarstig vegna flugs í lofhelgi Íslands um eitt stig, úr gulu í appelsínugult. Appelsínugult stig er næst efsta stig viðvörunar, næst kemur rautt sem þýðir að eldgos sé að hefjast eða þegar hafið með tilheyrandi öskuskýi. Appelsínugult stig merkir auknar líkur á að eldgos hefjist.
Bárðarbunga volcano: magnitude 4 earthquake, strongest since 1996, leads IMO to change aviation colour code to orange pic.twitter.com/9gPbaCDG6e
— Simon Cardy (@weather_king) August 18, 2014