„Afnám gjaldeyrishafta er brýnt úrlausnarefni og mikilvægt að hæfustu sérfræðingar sem völ er á vinni að því verkefni. Það er ánægjulegt að leitað sé til sérfræðinga MP banka um að taka að sér þjóðhagslega mikilvæg verkefni á borð við þetta“, segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, í fréttatilkynningu. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar MP banka, hefur fengið tímabundið leyfi frá störfum sínum fyrir bankann frá 15. janúar. Á meðan á leyfi Sigurðar stendur mun hann vinna fyrir stjórnvöld að losun fjármagnshafta, segir í fréttatilkynningu frá MP banka.
Eins og greint var frá í DV í morgun, þá hefur verið skipaður nýr starfshópur á vegum stjórnvalda um losun fjármagnshafta.
Auk Sigurðar verður Benedikt Gíslason, sem hefur unnið að haftalosunarmálum fyrir Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsmálaráðherra frá því í nóvember 2013, í hópnum. Einn innlendur sérfræðingur til verður skipaður í hópinn, samkvæmt frásögn DV í morgun.
Sigurður mun koma aftur til starfa hjá MP banka að leyfi loknu, en þangað til mun Tryggvi Tryggvason leiða eignastýringarsvið MP banka.