Því er stundum haldið fram að eitt það alvitlausasta sem fólk getur gert sé það að kaupa lottómiða. Líkurnar á að landa fyrsta vinningi eru sáralitlar og taki maður vikulega þátt í Lottó Íslenskrar getspár með 10 raða miða þá nemur kostnaðurinn tæpum 68.000 krónum á ári.
En jafnvel þótt líkurnar á vinningi séu allt að því hlægilegar, þá getur það stundum verið hyggilegt að taka þátt. Eftir því sem potturinn stækkar, því skynsamlegra er að kaupa miða. Aðrar ástæður en aukinn hagnaður geta einnig réttlætt lottómiðakaup. Það er ekki leiðinlegt að láta sig dreyma um hvað hægt sé að gera við nokkra tugi milljóna króna, er það?
Hverjar eru líkurnar?
Íslendingar geta tekið þátt í þremur mismunandi lottóum. Fyrst er það hið klassíska laugardagslottó Íslenskrar Getspár, Lottóið. Vikulega eru fimm kúlur dregnar upp í beinni útsendingu af samtals 40 kúlum. Líkurnar á að röð sé með sömu tölur og þær sem birtast í sjónvarpinu eru
1 á móti 658.008
og tíu raðir kosta 1.300 krónur eða 67.600 krónur á ári.*
Á miðvikudögum er það síðan Víkingalottóið, spilað með frændfólkinu í Skandinavíu. Vinningsfjárhæðirnar eru öllu hærri en í Lottóinu, enda fleiri þátttakendur, en líkurnar á vinningi eru jafnframt mun lægri. Líkurnar á að fá fyrsta vinning í Víkingalottóinu eru
1 á móti 12. 271. 512
og tíu raðir kosta 700 krónur eða 36.400 krónur á ári.*
Í Víkingalottó eru sex tölur dregnar út af alls 48. Sá sem kaupir tíu raða miða í hverri viku, eða um 520 raðir á hverju ári, getur átt von á því að fá sex tölur réttar um það bil einu sinni á 23.500 ára fresti, að því er skrifað er um á Vísindavef Háskóla Íslands. Að auki þarf ofurtöluna til þess að landa stærsta vinningi, sem vænta má í eitt skipti af hverjum átta. Að fá sex réttar auk ofurtölunnar er því átta sinnum erfiðara en að fá aðeins sex rétta.
Af einhverri ástæðu hafa það oftast verið Norðmenn sem hreppa fyrsta vinninginn.
Á föstudögum er það síðan Euro Jackpot, samevrópskur lottóleikur. Líkurnar á að vinna þann gullpott eru enn minni en í Víkingalottói, eða
1 á móti 59.325.280
og tíu raðir kosta 3.200 krónur eða 166.400 krónur á ári.*
Kaupi maður tíu raða lottómiða í öllum leikjunum í hverri viku þá nemur kostnaðurinn samtals 270.000 krónum á ári. Að því gefnu að þú vinnir ekki stóran vinning, og líkurnar eru sannarlega ekki með þér, þá er hægt að gera mjög margt skynsamlegra fyrir peninginn.
Kostnaðurinn við dagdrauma
Neil Irwin, blaðamaður Upshot hjá New York Times, skrifaði nýverið áhugaverða grein þar sem hann talaði fyrir þátttöku í lottóinu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Vegna þess hversu ótrúlega litlar líkur séu á að fá fyrsta vinning, þá þurfi kaupandi að hafa efni á að tapa andvirði lottómiðans. Eigi maður í fjárhagsvandræðum, já eða glími við spilafíkn, þá sé sömuleiðis best að láta lottóið eiga sig. En líti maður á kaup á lottómiðum sem neyslu en ekki fjárfestingu, og líti þannig á að lottó svipi til þess að fara í bíó eða kaupa rauðvínsflösku, þá megi finna skynsamleg rök fyrir því að taka þátt.
„Það er gaman að ímynda sér framtíðina eftir að hafa unnið háar fjárhæðir. Hver lætur sig ekki dreyma um hvað hann myndi kaupa eftir að hafa unnið í lottó?“ spyr Irwin í greininni. Þannig megi líta á að kostnaðurinn við miðakaupin sé einfaldlega kostnaður við að láta sig dreyma um lífið eftir „þann stóra“.
„Þetta eru heldur ekki endilega innantómir dagdraumar. Stundum geta þessir draumar leitt til jákvæðra breytinga í lífi þínu. Hvað myndir þú gera ef þú fengir fyrsta vinning? Myndir þú ferðast um heiminn? Kannski ættir þú að safna þér fyrir heimsreisu, jafnvel þótt þú ferðist í almennu farrými en ekki í einkaþotu,“ skrifar hann, í lauslegri þýðingu.
Skynsamari kaup ef potturinn er stór
Irwin bendir jafnframt á að eftir því sem potturinn stækkar, því skynsamlegra er að taka þátt út frá sjónarhóli tölfræðinnar. Ástæðan er sú að lottópotturinn stækkar ef hann rennur ekki út vikuna áður – peningana sem fólk eyddi í lottómiða í síðustu viku er hægt að vinna í þessari viku. Með öðrum orðum þá fer núvirði lottómiðans hækkandi eftir því sem potturinn stækkar.
„Þegar þú kaupir miða og líkur eru á stórum vinningi, þá ertu í raun að veðja á að þú vinnir peninga sem annað fólk eyddi í lottómiða með röngum tölum,“ segir Irwin.
Borgar það sig um næstu helgi?
Lottópottur helgarinnar hjá Íslenskri getspá, dreginn út þann 14. febrúar, stefndi í 47 milljónir króna. Hann gekk ekki út og verður potturinn því sexfaldur næst. „Geislandi stjörnur og glimmerklæddar milljónir“ sagði í auglýsingu á vefsíðu félagsins fyrir fimmfalda lottópottinn. Nær allar líkur voru á að þessar geislandi stjörnur og glimmerklæddu milljónir verði ekki þínar. En að öllu framansögðu, og í ljósi stækkandi lottópotts, borgar sig þá að taka þátt um næstu helgi, þar sem stærð pottsins verður eflaust í kringum 60 milljónir króna?
Hjálmar Gíslason, framkvæmdarstjóri hjá Qlik og einn eiganda Kjarnans, skrifaði árið 2011 stutta grein þar sem spurði þessarar sömu spurningar. Rétt eins og fram hefur komið í þessari grein, þá svaraði Hjálmar: „Oftast ekki, en þegar fyrsti vinningur er margfaldur geta þó skapast aðstæður að það sé hreinlega fín hagnaðarvon í því að taka þátt í Lottóinu.“
Hjálmar gerði reiknilíkan sem hjálpar til við að ákveða hvort það borgi sig að spila í lottó, að gefinni stærð pottsins. Líkanið má finna hér, en þeir sem vilja fara að ráðum líkansins ættu ekki að taka þátt um næstu helgina.
*Árskostnaður er miðaður við að keyptur sé tíu raða miði í hverri viku.
Í excel-skjalinu, sem er frá 2011, er verð á lottóröð stillt í 100 krónur. Það þarf að uppfæra handvirkt, verð í dag er 130 krónur.
Tengt efni:
Flestir tilbúnir að skipta á lottómiðum.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 19. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.