Fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar og tveir þingmenn Vinstri grænna gagnrýndu harðlega afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsóknum um ríkisborgararétt til Alþingis undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi í dag. Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata sagði meðal annars að það væri lygi hjá Útlendingastofnun að allsherjar- og menntamálanefnd hefði samþykkt það verklag sem hún lagði fram 2018 til þess að hún þyrfti ekki „að standa í því að afgreiða jafn margar umsóknir til Alþingis og raun bar vitni“.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata hóf umræðuna og benti á að um árabil hefði það fyrirkomulag verið haft á afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt sem beint væri til Alþingis að þær færu í gegnum Útlendingastofnun sem tæki þær saman ásamt öðrum upplýsingum og sendi Alþingi til afgreiðslu.
Sagði hún að staðið hefði til að gera þetta nú rétt fyrir jólin líkt og endranær en vegna „tregðu Útlendingastofnunar“ til að afhenda gögnin hefði allsherjar- og menntamálanefnd farið fram á afhendingu þeirra með vísan til laga um þingsköp Alþingis sem kveður á um skýra skyldu stjórnvalda til að verða við slíkri beiðni þingnefndar.
„Hefur stofnunin nú þriðja sinni sýnt þinginu þá vanvirðingu að lýsa því yfir að hún muni ekki afhenda þinginu umbeðin gögn og upplýsingar, að sögn samkvæmt fyrirmælum ráðherra. Fer ég því fram á að forseti standi vörð um virðingu Alþingis Íslendinga og gangi á eftir því að stjórnvöld sinni lögbundinni skyldu sinni til að afhenda þinginu gögn og upplýsingar sem óskað hefur verið eftir með vísan til laga um þingsköp Alþingis,“ sagði Arndís Anna.
Bagalegt að Útlendingastofnun hafi ekki orðið við beiðninni fyrir jólin
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar benti í framhaldinu á að öll nefndin væri sammála um að þetta væri algerlega óboðlegt.
„Þess vegna tek ég undir orð háttvirtrar þingkonu þar sem við óskum eftir atbeina forseta, að hún beiti sér fyrir því að Útlendingastofnun verði við þessari beiðni okkar. Það var auðvitað bagalegt að þetta gæti ekki gerst fyrir jól eins og vaninn er í venjulegu árferði, en okkur var gefið vilyrði fyrir því að fá gögnin fyrir 1. febrúar þannig að við gætum klárað þetta. Ég óska sem sagt eftir því að þingið og forseti leggist á eitt um að fara fram á þetta,“ sagði hann.
„Í algeru samræmi og samhengi við það hvernig núverandi ríkisstjórn umgengst þingið“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sagðist eindregið taka undir tilmæli þingmannanna sem rætt höfðu málið á undan henni.
„Þetta er algjörlega óboðlegt og þá er orðin veruleg stefnubreyting í samskiptum nefndar, í þessu tilviki undirnefndarinnar varðandi ríkisborgararéttinn, og ráðuneytisins. Það þarf að komast á hreint hvort þetta er markvisst af hálfu ríkisstjórnar og ráðherra sem fer með þennan málaflokk. Þingnefndin og þingmennirnir sem vinna að því að fara yfir gögn varðandi ríkisborgararéttinn verða að hafa aðgang að öllum gögnum. Það er réttur okkar og skylda til að við getum sinnt því hlutverki sem við höfum skrifað undir, það er stjórnarskrárvarinn eiður. Mér finnst þetta afskaplega bagalegt en um leið er þetta í algeru samræmi og samhengi við það hvernig núverandi ríkisstjórn umgengst þingið,“ sagði hún.
Hvað er þetta annað en gríðarleg vanvirðing við Alþingi?
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata tók þátt í umræðunum og sagði hann að honum rynni blóðið til skyldunnar að tjá sig um afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsóknum um ríkisborgararétt til Alþingis vegna þess að hann sat í allsherjar- og menntamálanefnd síðustu tvö kjörtímabil.
„Þá reyndi stofnunin með liðsinni ráðuneytisins ítrekað að breyta verklagi; með góðu eða illu skyldi breyta verklagi þannig að hún þyrfti ekki að standa í því að afgreiða jafn margar umsóknir til Alþingis og raun bar vitni. Nú háttaði svo til við upphaf þessa kjörtímabils að nýliðar skipuðu allsherjar- og menntamálanefnd að mestu leyti. Þeim var talin trú um að orðið hefði sammæli á síðasta kjörtímabili um breytt verklag, það verklag sem stofnunin er núna einhliða búin að ákveða að beita.
Ég er hér kominn, frú forseti, til að segja að þetta er lygi. Það er lygi hjá Útlendingastofnun að allsherjar- og menntamálanefnd hafi samþykkt það verklag sem hún lagði fram hér 2018. Við gerðum það aldrei. Ekki einn einasti þingmaður, hvorki stjórnar né stjórnarandstöðu á þeim tíma, samþykkti að Útlendingastofnun myndi hunsa lögboðið verkefni sitt gagnvart ríkisborgararétti. Hún heldur því fram, fær það ekki samþykkt. Gerir þetta samt svona. Hvað er það, frú forseti, annað en gríðarleg vanvirðing við Alþingi?“ spurði hann.
„... fyrirgefið, ég ætlaði að segja eitthvað dálítið ljótt“
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna tók undir með stjórnarandstöðunni. „Mér finnst þetta alveg fráleitt. Það eru hér lög og eftir þeim eigum við að fara. Ég hef setið í undirnefndinni sem fjallað hefur um slík mál, þ.e. ríkisborgararétt, og eins og hér hefur komið fram þá hefur verið reynt að breyta verklaginu. Það má vel vera að því þurfi að breyta, en það gerist ekki einhliða í dómsmálaráðuneytinu. Það gerist í meðförum þingsins. Og þess vegna verður hæstv. dómsmálaráðherra að hlutast til um það að Alþingi fái þessi gögn til að klára vinnu sína. Hvort ráðherrann vill svo í framhaldinu taka eitthvert samtal um það að breyta verklaginu er bara allt annað mál. Lögin eru svona í dag og eftir þeim ber að fara.
Þetta er algerlega ólýðræðislegt og ógeð ... fyrirgefið, ég ætlaði að segja eitthvað dálítið ljótt. Við getum ekki látið koma svona fram við okkur af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það á ekkert með að hlutast til með þessum hætti um verklag sem er í lögum og við störfum eftir hér á Alþingi. Þannig að hæstvirtur dómsmálaráðherra verður að hlutast til um að við fáum þessi gögn,“ sagði Bjarkey.
Þarf að breyta umsýslunni
Annar þingmaður Vinstri grænna tók til máls, Jódís Skúladóttir. „Ég kem hingað til að taka undir það sem hér hefur verið sagt. Þetta er auðvitað glórulaust. Og það að við sem sitjum í allsherjar- og menntamálanefnd, við sem sitjum í undirnefndinni, bíðum gagna á meðan þessi hringavitleysa milli stofnunar og ráðuneytis, þar sem hver vísar á annan, er að leysast er óboðlegt. Ég vil minna á að reglurnar voru á heimasíðu Útlendingastofnunar til 1. október. Umsækjendur greiða fyrir þessar umsóknir sem ber að vísa til Alþingis. Því verður að fara eftir þessum lögum. Það er náttúrlega bara galið að stofnun eða ráðuneyti ætli einhliða að breyta þessum vinnureglum.
Ég ætla líka að bæta því við að við erum sjálfsagt mörg sammála því að umsýslunni þarf að breyta. Hún er ekki frábær eins og hún er. En það verður ekki gert með einhliða ákvörðun sem okkur ber svo að fara eftir. Það virkar ekki þannig,“ sagði Jódís.
Líneik Anna Sævarsdóttir, forseti 2. varaforseti Alþingis, tók til máls og sagði að hún vildi láta þess getið að hún myndi beita sér fyrir því að samtal færi fram á milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins um þetta mál, þ.e. um samskipti Útlendingastofnunar og allsherjar- og menntamálanefndar.
Finnst óeðlilegt hversu hátt hlutfall ríkisborgararéttarveitinga fer fram með lögum frá Alþingi
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra blandaði sér í umræðurnar og sagði að þingið ætti auðvitað rétt á því að fá send gögn sem því ber lögum samkvæmt.
„Ég ætla hins vegar að vekja athygli á öðru í þessum málaflokki almennt sem mér finnst vera mikill skortur á að sé tekið inn í umræðuna hér, sem er að það er auðvitað fullkomlega óeðlilegt hversu hátt hlutfall ríkisborgararéttarveitinga fer fram með lögum frá Alþingi. Það gefur tilefni til þess að skoða lögin sjálf. Ef vilji löggjafans stendur til þess að rýmka mjög verulega skilyrði þess að fá ríkisborgararétt á Íslandi þá á að breyta lögunum en ekki vera með upphrópanir hér á þingi um þau mál sem fengið hafa neikvæða afgreiðslu réttrar stofnunar á grundvelli þeirra laga sem Alþingi sjálft setti, að allir neitanirnar þurfi að koma til þingsins vegna þess að þingið ætli að fara aftur yfir það hvers vegna málin hafa ekki fengið afgreiðslu.
Hérna höfum við í sumum tilfellum verið að tala um á annað hundrað veitingar ríkisborgararéttar með lögum sem er fullkomlega óeðlilegt ástand, vegna þess að inngrip löggjafans fram yfir eigin löggjöf um ríkisborgararétt hlýtur ávallt að vera algjört undantekningamál,“ sagði ráðherrann.
Þetta er neyðarúrræði
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar benti í framhaldinu á að Íslendingar væru með lög um veitingu ríkisborgararéttar.
„Annars vegar er það með stjórnvaldsákvörðun hjá Útlendingastofnun og hins vegar með lögum. Þeir umsækjendur sem senda inn umsögn sína til Alþingis gera það vegna þess að þeir uppfylla ekki skilyrði til að fá veitingu ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun. Fyrir því kunna að vera margar ástæður; skortur á skilríkjum frá heimalandi, skortur á lesskilningi, að fólk sé ólæst og geti því ekki farið í gegnum íslenskuprófið, Íslendingar sem hafa misst ríkisborgararétt sinn en hafa ekki uppfyllt skilyrði til búsetu og svo framvegis. Þetta er neyðarúrræði þar sem Alþingi grípur inn í. Það er nauðsynlegt að hafa það og á ekki að breyta því. Þetta eru um 25 umsóknir á ári og ég held að við séum ekkert of góð til þess.“
Lagði hún til að Alþingi breytti fyrirkomulaginu vegna þessa ástands, auglýsti eftir umsóknum, þ.e. sendi út auglýsingu um að umsækjendur sem biðu milli vonar og ótta sendi umsóknir sínar beint til Alþingis svo að nefndin fengi þær upplýsingar beint.