Nú standa öll spjót á stjórnendum Landsbankans vegna fyrirætlanna ríkisbankans um að reisa sér nýjar 14.500 fermetra höfuðstöðvar við Austurhöfn í Reykjavík, við hlið Hörpu, fyrir litla átta milljarða króna.
Áformin hafa verið harðlega gagnrýnd og þá helst á meðal stjórnarliða á Alþingi, en Guðlaugur Þór Þórðarson, Elín Hirst, Vigdís Hauksdóttir og Frosti Sigurjónsson eru á meðal þeirra þingmanna sem hafa lýst yfir vanþóknun sinni á nýjum höfuðstöðvum ríkisbankans. Þá hefur bæjarráð Vestmannaeyjabæjar óskað eftir því að hluthafafundur verði kallaður saman hjá Landsbankanum til að fara yfir málið og bæjarstjórinn í Kópavogi vill fá höfuðstöðvar ríkisbankans þangað.
Nú hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra bæst í hópinn, en hann gerði ýmsar athugasemdir við fyrirætlanir Landsbankans í fréttum RÚV í gærkvöldi. Í fyrsta lagi finnst honum gert ráð fyrir allt of miklu byggingamagni milli Hörpu og gamla bæjarins, og þá gagnrýndi hann forgangsröðun ríkisbankans sem ætti fyrst og síðast að einbeita sér að því að bæta kjör viðskiptavina sinna.
Svo sagði forsætisráðherra á RÚV: „Og í þriðja lagi þá finnst mér það undarlegt ef banki sem er í almannaeigu, ætlar að fara gegn því sem virðist vera augljós vilji eigendanna - almennings og fulltrúa hans.“
Ummæli Sigmundar Davíðs koma ekki á óvart, enda hefur ríkisbankinn verið hálfgerður stuðpúði fyrir Framsóknarflokkinn í gegnum tíðina, en sumt af því sem forsætisráðherra segir stenst ekki alveg skoðun.
Í fyrsta lagi hefur forsætisráðherra eða ríkisstjórnin ekkert að gera með skipulagsmál í höfuðborginni, þau mál eru á forræði Reykjavíkurborgar, þó sumir geti bara alls ekki sætt sig við það. Í öðru lagi er fallegt að sjá hvað Sigmundi Davíð er umhugað um að vilji almennings nái fram að ganga í málinu. Viðhorf almennings til fyrirhugaðra höfuðstöðva Landsbankans hefur reyndar ekki verið mældur formlega, en forsætisráðherra er greinilega í góðum tengslum við almannaviljann.
Það væri óskandi ef hann og aðrir í ríkisstjórninni myndu hlusta oftar á vilja almennings. Sérstaklega þegar hann hefur verið mældur með vísindalegum hætti, eins og til dæmis í Evrópusambandsmálinu þar sem meirihluti þjóðarinnar vildi að aðildarviðræðurnar við sambandið verði kláraðar samkvæmt skoðanakönnunum.
En vilji er víst ekki það sama og vilji. Tja, nema stundum auðvitað.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.