Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, þurfti að bíta í það súra epli að vilji hans til að færa virkjanir í neðrihluta Þjórsá úr biðflokki í nýtingarflokk rammaáætlunar gekk ekki í gegn á yfirstandandi þingi. Jón var reyndar alls ekki sáttur við þá niðurstöðu og sagði við atkvæðagreiðslu á Alþingi í gær að þetta væri bara hálfleikur. Komið yrði aftur fram með málið og þá með stæl.
Morgunblaðið greindi síðan frá því í morgun með stríðsfyrirsögn að frekari atvinnuuppbygging væri sett í uppnám vegna breytinga á rammaáætlun. Af þessu mætti skilja að Ísland væri einfaldlega uppurið af orku ef vilji Jóns Gunnarssonar, sem vill sérstaklega Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun í nýtingarflokk, fái ekki fram að ganga.
Það virðist þó gleymast ansi oft í þessari dómsdagsumræðu að þegar eru 16 aðrir virkjanakostir í nýtingarflokki. Er ekki full ástæða til að spara aðeins stóru orðin?