Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar vill vita áform Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, varðandi ÍL-sjóð, nú þegar Róbert Spanó, fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, hefur tekið undir lögfræðiálit LOGOS sem lífeyrissjóðir létu vinna og segir hann ríkið bótaskylt fari ÍL-sjóður í þrot.
„Hvað leggur hann til að gert verði? Er hann enn á því að hans hugmyndir gangi upp um að heimila gjaldþrotaskipti eða önnur sambærileg slit á ÍL-sjóði?“ spurði Helga Vala fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.
Helga Vala sagði ríkið verða að standa skil á ábyrgðinni á ÍL-sjóði með öllu því sem fylgir og geti ekki breytt því með lagasetningu, „enda ekkert slíkt ástand sem heimilar setningu einhvers konar neyðarlaga“.
Í lögfræðiáliti sem LOGOS hefur unnið fyrir fjóra af stærstu lífeyrissjóðum landsins kemur fram að fyrirhuguð lagasetning Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem á að fela í sér gjaldþrot eða sambærileg skuldaskil ÍL-sjóðs, fari í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Í áliti LOGOS kemur fram að slíkt inngrip fæli í sér eignarnám eða annars konar skerðingu eignarréttinda sem myndi skapa íslenska ríkinu bótaskyldu gagnvart þeim sem eiga skuldabréf útgefin af sjóðnum. Þar eru íslenskir lífeyrissjóðir langfyrirferðamestir, en þeir eiga um 80 prósent bréfanna.
Í lögfræðiáliti sem Landslög unnu að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra kemur fram að eignaréttindi lífeyrissjóðanna yrðu ekki skert ef ÍL-sjóður yrði settur í þrot þar sem þeir fengju kröfur sínar greiddar að fullu. Eina eignaskerðingin væri töpuð ávöxtun til framtíðar.
Lífeyrissjóðirnir fengu í framhaldinu Róbert Spanó, fyrrverandi forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, til að fara yfir bæði lögfræðiálitin og segir hann kröfur lífeyrissjóðanna í ÍL-sjóð varðar af eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Ákveði ríkið að keyra sjóðinn í þrot er það bótaskylt gagnvart kröfuhöfum sjóðsins, að mati Róberts.
Milligöngumaður á vegum ríkisins mun eiga í samskipti við eigendur bréfa
Bjarni benti á að ekki að er búið að leggja fram neitt frumvarp á þingi um slit ÍL-sjóð og sagði hann lögfræðiálitið LOGOS fullt af fyrirvörum um hvers efnis líkt mögulegt frumvarp yrði, þegar til þess kæmi.
Stjórnvöld hafa skipað milligöngumann fyrir hönd ríkisins sem mun eiga í samskiptum við eigendur bréfa í ÍL-sjóði. Tilgangurinn, að sögn ráðherra, er að reyna að „laða fram sameiginlega lausn sem myndi fela það í sér að þeir sem eiga kröfur á ÍL-sjóð myndu taka í raun og veru yfir eignasafnið og við fengjum þannig í reynd uppgjör á þessum skuldbindingum.“
„Það eina sem vakir fyrir mér sem fjármálaráðherra er að uppfylla lagaskyldu mína um að takmarka tjón ríkissjóðs vegna þeirrar ábyrgðar sem ríkið er í fyrir skuldbindingum ÍL-sjóðs,“ sagði Bjarni, sem furðaði sig á framgöngu margra þingmanna sem hann sagði vera i „einhvers konar kapphlaupi hér við fjármálaráðherrann“.
Bjarni sagði að hann væri aðeins að reyna að uppfylla lagaskyldur sínar, „við að koma fram þeim sjónarmiðum í þinginu að þetta sé allt saman ólögmætt og ríkissjóður verði að taka á sig sem allra mesta tjón vegna þess hvernig Íbúðalánasjóður var smíðaður á sínum tíma“.
„Fyrir hvern er þetta fólk að vinna sem talar svona? Er ekki bara langbest að huga að atriðum sem geta varið stöðu ríkissjóðs lögum samkvæmt? Það er það sem fjármálaráðherrann er að reyna að gera,“ sagði Bjarni.
„Við skulum ekki beita þjóðina blekkingum“
Helga Vala gaf lítið fyrir svör Bjarna. „Við skulum ekki beita þjóðina blekkingum. Það hefur ekki verið lagt fram frumvarp en með þessu lögfræðiáliti er verið að taka af allan vafa um ábyrgð íslenska ríkisins vegna þess hvernig stjórnarskráin er saman sett, vegna þess hvernig mannréttindasáttmálinn er samansettur.“
Hún sagði ráðherra ekki geta skýlt sér á bak við milligöngumann sem hann hefur sett í verkið við að reyna að koma á einhverjum samningum. „Það er ekki í boði. Það er hans að taka ábyrgð á gjörðum sínum einu sinni. Við hljótum að gera þá kröfu að það sé hann sem sé hér í forsvari fyrir þetta. Það fer ekkert á milli mála að ábyrgðin er hjá ríkissjóði.“
Helga Vala ítrekaði spurningu sína til ráðherra um hvað hann hyggst gera í málefnum ÍL-sjóðs.
Bjarni sagðist ekki vera að reyna að skýla sér á bak við milligöngumann, þvert á móti. Málið væri hins vegar ekki einfalt.
„Ríkissjóður er í einfaldri ábyrgð fyrir skuldbindingum ÍL-sjóðs og ÍL-sjóður á ekki fyrir skuldum. Það er hins vegar ekki alveg augljóst hvernig á að bregðast við þeirri stöðu og í því lögfræðiáliti sem háttvirtur þingmaður er hér að túlka fyrir þingheim þá er velt upp sjónarmiðum um það að það þurfi að vera mjög sterk rök til að grípa inn í og setja sjóðinn í slit ef menn ætla að gera það með eignarnámi án þess að bætur komi fyrir,“ sagði Bjarni.
Það þýði hins vegar ekki, að hans mati, að ríkissjóður sé í fullri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum ÍL-sjóðs út líftíma allra krafna. „Þetta bara þýðir það ekki. Það er svo einfalt. Þannig að við skulum bara sjá.,“ sagði Bjarni.
Hann sagðist fagna allri opinberri umræðu um ÍL-sjóð. „Megi lögfræðiálitin verða sem flest og megi umræðan verða sem dýpst og við í framhaldinu taka ákvörðun með hagsmuni ríkissjóðs að leiðarljósi.“