Alls 500 milljónum króna verður veitt úr ríkissjóði til að auka viðbúnað lögreglu í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík 16.-17 maí árið 2023. Þetta kemur fram í nýju meirihlutaáliti fjárlaganefndar, sem stjórnarþingmenn skrifa undir, og birt var í gærkvöldi.
Gert er ráð fyrir því að tugir þjóðarleiðtoga, ráðherra og embættismanna frá flestum ríkjum Evrópu muni sækja fundinn sem verður fjórði leiðtogafundur í sögu Evrópuráðsins. Hann verður auk þess sá umfangsmesti sem nokkru sinni hefur verið haldinn.
Aðeins þrír leiðtogafundir Evrópuráðsins hafa verið haldnir í tæplega 74 ára sögu ráðsins. Fundurinn verður sá umfangsmesti sinnar tegundar sem Ísland hefur nokkurn tímann haldið.
Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949. Samkvæmt stofnskrá þess er því ætlað að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa. Rík áhersla hefur verið lögð á að auka skilning og samkennd meðal íbúa álfunnar á grundvelli sameiginlegrar arfleifðar.
Evrópuráðið hefur höfuðstöðvar í Strassborg og tengist ekki Evrópusambandinu, þótt öll aðildarríki þess séu einnig í ráðinu. Alls eru aðildarríkin 46 talsins og helstu stofnanir þess eru þing og ráðherranefnd Evrópuráðsins.
Ísland hefur tvisvar áður gegnt formennsku í Evrópuráðinu, árin 1955 og 1999.
Sjálfsagt að svara kalli um að leiðtogar komi saman
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra tilkynntu um það 7. nóvember síðastliðinn að Evrópuráðið hefði tekið ákvörðun um að efna til leiðtogafundar undir formennsku Íslands í ráðinu. Þær tvær verða gestgjafar fundarins.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins vegna þessa sagði að aðildarríki Evrópuráðsins hefðu sammælst um að ríkt tilefni væri til að leiðtogar ríkjanna 46 kæmu saman á þeim viðsjárverðu tímum sem nú væru uppi.
Þar var haft eftir Katrínu að Evrópuráðið snerist um grunngildi samfélaga okkar; lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. „Innrásin í Úkraínu, heimsfaraldur og efnahagsþrengingar skapa áskoranir fyrir þessi grunngildi og því hefur aldrei verið mikilvægara að leiðtogar Evrópuþjóða endurnýi heitin og séu samtaka um að standa vörð um þessi gildi. Ísland mun taka formennskuhlutverk sitt alvarlega enda tökumst við á við þetta verkefni á krefjandi tímum.“
Þórdís Kolbrún sagði á sama stað að Ísland myndi að sjálfsögðu svara því kalli Evrópuríkja um að leiðtogarnir komi saman. „Ljóst er að sú staða sem upp er komin í álfunni í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu verður í brennidepli á leiðtogafundinum. Aðstæður til að halda slíkan fund gætu því varla verið meira knýjandi og augu umheimsins munu án efa beinast að Íslandi þessa daga á vori komanda."