Skömmu eftir að Osama bin Laden féll fyrir byssukúlum bandarískra sérsveitarmanna í Pakistan í maímánuði árið 2011, birtust fréttir af hetjudáð hermannanna og nákvæm lýsing á morðinu á eftirlýstasta manni jarðar fylgdi skjótt í kjölfarið. Samkvæmt nýrri og athyglisverðri grein rannsóknarblaðamannsins Seymour M. Hersh, sem birtist í The London Review of Books, eru allar líkur á að morðið hafi átt sér stað öðruvísi en bandarísk stjórnvöld hafa látið í veðri vaka.
Í stofufangelsi í Pakistan
Samkvæmt grein Hersh var Osama bin Laden í haldi pakistanska hersins, en fór ekki huldu höfði í Pakistan, eins og haldið hefur verið fram. Þá var Bin Laden vistaður í stofufangelsi, og pakistanski herinn vissi ekki bara hvar hann var heldur þáði greiðslur frá Sádi-Arabíu vegna uppihalds leiðoga al-Kaída hryðjuverkasamtakanna.
Hersh fullyrðir í grein sinni að það sé uppspuni bandarískra stjórnvalda að upplýsingarnar sem leiddu til aftöku bin Laden hafi náðst fram með hörðum yfirheyrslum og pyntingum með vatnsbretti, eins og greint er frá í kvikmyndinni Zero Dark Thirty. Hið rétta sé að maður hafi gengið inn af götunni og sagt bandarískum embættismönnum í Pakistan hvar bin Laden væri að finna, og fékk í sinn hlut 25 milljóna dala fundarlaun.
Tilbúinn hasar
Í kjölfar morðsins á bin Laden komust sögur af því hvernig bandarískir sérsveitarmenn skutu sér leið inn í „fylgsni“ hans í hámæli. Bin Laden átti meira segja að hafa skotið að bandarísku hermönnunum, slíkur var hasarinn. Samkvæmt grein Hersh er þetta ekki sannleikanum samkvæmt, sérsveitarmönnunum beið engin mótstaða, heldur læddust þeir hljóðlega upp í svefnherbergi bin Laden og tóku af lífi þar sem hann dvaldi óvopnaður.
Þá telur Hersh afar ólíklegt að útför bin Laden hafi farið fram út á sjó, líkt og haldið hefur verið fram. Líklegra sé að líki hans hafi verið kastað út úr þyrlunni sem flutti bandarísku sérsveitarmennina aftur til Afganistan, yfir fjalllendi.
Fyrri greinar byggðar á upplýsingum frá hernum og Hvíta húsinu
Seymour M. Hersh, sem hlaut Pulitzer verðlaunin fyrir umfjöllun sína um My Lai fjöldamorðin í Víetnam, hefur skrifað um bandaríska herinn í áraraðir og birt greinar sínar reglulega í The New Yorker frá árinu 1993.
Í tímaritinu birtist grein árið 2011 undir fyrirsögninni Getting Bin Laden, eftir blaðamanninn Nicholas Schmidle, sem er sonur yfirmanns hjá bandaríska hernum. Í umræddri grein var farið nákvæmlega yfir morðið á Bin Laden, og meira segja haft eftir sérsveitarmanninum sem skaut Bin Laden hvað hann sagði þegar hryðjuverkamaðurinn féll í valinn. Síðar kom í ljós að Schmidle hafði aldrei talað við neinn sérsveitarmann sem tók þátt í aðgerðinni, heldur byggt greinina sína einvörðungu á upplýsingum frá hernum og innan úr Hvíta húsinu.