„Það skiptir máli fyrir budduna hvar þú býrð.“ Þannig hóf Guðbrandur Einarsson þingmaður Viðreisnar ræðu sína undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
Hann sagði að samanburður Byggðastofnunar á fasteignamati og fasteignagjöldum árið 2020 hefði leitt í ljós að lóðarleiga í Reykjanesbæ væri áberandi hæst miðað við viðmiðunarsvæðin, eða 126.000 krónur á ári, sem væri 38,7 prósent hærra en í Grundarfirði þar sem næsthæsta lóðarleigan væri 91.000 krónur á ári.
„Álagningin að meðaltali í Reykjanesbæ er 1,75 prósent af lóðarmati á móti 1,9 í Grundarfirði. Lægst er lóðarleigan í Kópavogi miðað við krónutölu, tæpar 17.000 krónur á ári, og því er lóðarleiga í Reykjanesbæ rúmlega 600 prósent hærri en lóðarleigan í Kópavogi,“ sagði hann.
Benti þingmaðurinn á að ríkið væri stór landeigandi í Reykjanesbæ og rukkaði 2 prósent lóðarleigu á meðan sveitarfélagið veitti 25 prósent afslátt af lóðarleigu af því landi sem sveitarfélagið á.
„Þeir sem borga lóðarleigu til Reykjanesbæjar greiða því 1,5 prósent lóðarleigu. Landeigendur aðrir en ríkið hafa ekki ljáð máls á því að lækka leigu á landi á meðan ríkið er ekki til viðtals um lækkun leigu. Stjórnendur Reykjanesbæjar reyndu á sínum tíma að fá ríkið til þess að lækka lóðarleiguna, en þau svör sem embættismenn veittu voru á þann veg að íbúðir á Ásbrúarsvæðinu hafi verið seldar svo ódýrt og þess vegna ætti að ná inn tekjum í gegnum lóðarleigu í staðinn.
Það skýtur skökku við að þeir sem hafa keypt á Ásbrúarsvæðinu sitji uppi með okurlóðarleigu vegna þess að ríkið seldi eignir sem það fékk næstum gefins á útsöluprís. Það verður að gera þá kröfu til ríkisvaldsins að það sýni samfélagslega ábyrgð og gott fordæmi og lækki lóðarleigu. Það getur ekki gengið að íbúar í Reykjanesbæ greiði 600 prósent hærri lóðarleigu en íbúar í Kópavogi,“ sagði hann að lokum.