Óuppfyllt íbúðaþörf hér á landi nemur 4.450 íbúðum, miðað við uppfærða íbúðaþarfagreiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Byggja þarf 500 fleiri íbúðir en áður var talið til að slá á þörfina, þar sem íbúum fjölgaði meira en búist var við í fyrra.
Í greiningunni, sem byggir á mannfjöldaspá Hagstofu, segir að hér þurfi að byggja 27 þúsund nýjar íbúðir fram til ársins 2030 til vinna á óuppfylltri íbúðaþörf og halda í við fólksfjölgun, en það jafngildir tæplega þrjú þúsund íbúðum á hverju ári.
Sú langtímaspá helst óbreytt, þrátt fyrir að núverandi íbúðaþörf hafi aukist, þar sem fleiri íbúðir komu á markað í fyrra en gert var ráð fyrir og sömuleiðis sé útlit fyrir að fleiri íbúðir komi á næstu tveimur árum en upphaflega var talið. Það muni því takast að vinna meira á óuppfylltu íbúðaþörfinni í ár og á næsta ári en fyrri spá gerði ráð fyrir.
Karlotta Halldórsdóttir, hagfræðingur í hagdeild HMS, segir að umræðan um lóðaskort hafi risið reglulega og er sögð standa í vegi fyrir íbúðauppbyggingu. Hún bætir við að uppfærða greining stofnunarinnar ætti að vera sveitarfélögum hvatning til að vera með tilbúnar lóðir til úthlutunar.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sagði á vaxtaákvörðunarfundi í síðustu viku að mikil hækkun fasteignaverðs sem hefur átt sér stað væri að einhverju leyti undirbyggð á skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt honum væri ákvörðun Reykjavíkurborgar að hafa ekki brotið nýtt land fyrir nýjar íbúðabyggðir á síðari árum þar stór þáttur.