Beinn kostnaður RÚV við þátttöku í Eurovison í ár er þegar orðinn 10,3 milljónir króna. Þátttökugjald sem hver þáttatakandi þarf að greiða til framkvæmdastjórnar keppninnar í Vín er um það bil 4,3 milljónir íslenskra króna, eða 28.799 evrur. Þá greiddi RÚV listamönnunum sex milljónir króna til að undirbúa atriðið.
Upptöku- og framleiðsluteymið StopWaitGo stendur fyrir framlagi Íslendinga í ár. Lag þeirra Pálma Ragnars og Ásgeirs Orra Ásgeirssona og Sæþórs Kristjánssonar, Unbroken, með söngkonunni Maríu Ólafsdóttur í fararbroddi, hafði betur í undankeppninni í Háskólabíó í vetur gegn hinu framlagi StopWaitGo, sem Friðrik Dór Jónsson flutti.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, sagði í tölupóstsamskiptum við Kjarnann að gert sé ráð fyrir að uppæðin sem RÚV leggur til við undirbúning atriðisins fari í að fullvinna lagið og atriðið og í að greiða tólf manns laun.
Hópinn sem keppir í Vín skipa auk Maríu Ólafsdóttur söngkonu, Íris Hólm Jónsdóttir, Alma Rut Kristjánsdóttir, Friðrik Dór Jónsson og Hera Björk Þórhallsdóttir í bakröddum, Pálmi Ragnar, Ásgeir Orri og Sæþór sem lagahöfundar, Jónatan Garðarson sem fararstjóri, Valgeir Magnússon sem fjölmiðlafulltrúi, Sunna Dögg Ásgeirsdóttir sem búningahönnuður og Hjördís Ásta Guðmundsdóttir sem förðunarfræðingur. Ásgeir Orri mun jafnframt syngja bakraddir.
Auk þess eigi upphæðin að duga fyrir öllu sem tengist atriðinu, það er búningum, æfingum hér á landi, gerð kynningarefnis og þess háttar. Gerð tónlistarmyndbands við lagið sem keppir fyrir Íslands hönd er ekki fjármögnuð af RÚV heldur af þátttakendum sjálfum. Iris Films framleiddi myndbandið við lag StopWaitGo.
Ekki liggur fyrir heildarkostnaður við þáttöku Íslands í Eurovison. Skarphéðinn Guðmundsson, sagði kostnaðinn hafa staðið í stað undanfarin ár í um 30 milljónum króna, en sú tala velti aðallega á hvar í heiminum keppnin er haldin hverju sinni. Kostnaður stefni í að vera í meðallagi í ár, „þar sem keppnin verður haldin í Vín og gerum við ráð fyrir að sá ferðakostnaður rúmist innan áætlana okkar,“ sagði Skarphéðinn í tölvupósti til Kjarnans.
Fyrra undankvöld Eurovision er á morgun, þriðjudag. Íslenski hópurinn flytur svo framlag Íslands á seinna undankvöldinu á fimmtudaginn. Þá ræðst það hvort Ísland fái að flytja lagið í aðalkeppninni á laugardagskvöldið.
Myndbandið við framlag Ísland í Eurovision
https://youtu.be/sov_pE1cdFY