Nýr þjóðmálaþáttur í umsjón Heiðu Kristínar Helgadóttur, sem mun hefja göngu sína á Stöð 2 í febrúar og heyrir beint undir fréttastofu 365 miðla, mun ekki hafa nein áhrif á þjóðmálaumræðuþáttinn Eyjuna sem er á dagskrá stöðvarinnar á sunnudögum. Þetta staðfestir Björn Ingi Hrafnsson, umsjónarmaður Eyjunnar.
Hann segir að í gildi sé langtímasamningur um þáttinn og að algjört sjálfstæði ríki um efnistök. Nýr þáttur á vegum fréttastofu 365 miðla breyti þar engu um. Björn Ingi segir það hins vegar vera fagnaðarefni að fleiri og fleir átti sig á því að það sé líf eftir pólitík og því sé mjög flott að fá Heiðu Kristínu með þessum hætti inn í fjölmiðla.
Hætti í stjórnmálum
Kjarninn greindi frá því í gærmorgun að Heiða Kristín, sem nýverið hætti sem stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, hafi verið ráðin til 365 miðla. Þar mun hún stýra nýjum vikulegum þætti um þjóðmál á Stöð 2. Í samtali við Kjarnann sagðist Heiða Kristín mjög spennt og til í þetta nýja verkefni.
Í desember tilkynnti Heiða Kristín að hún myndi hætta sem stjórnarformaður Bjartrar framtíðar um síðustu áramót og hætta afskiptum af stjórnmálum. Hún kom að stofnun Besta flokksins fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2010 og síðar Bjartrar framtíðar. Hún var um tíma aðstoðarmaður Jóns Gnarr borgarstjóra, framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Besta flokksins, varaformaður Besta flokksins, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar. Hún bauð sig fram fyrir hönd Bjartrar framtíðar í síðustu alþingiskosningum en náði ekki kjöri. Hún er varaþingmaður flokksins í dag.
Samstarfssamningur milli fjölmiðla
Björn Ingi Hrafnsson stýrir Eyjunni, sem er á dagskrá Stöðvar 2 á sunnudögum.
Í febrúar 2014 var tilkynnt að vefsíðan Eyjan,sem er í eigu Pressunnar, hefði gert samstarfssamning við 365 miðla um að sjá um vikulegan sjónvarpsþátt undir Eyju-heitinu. Honum yrði stýrt af Birni Inga Hrafnssyni, aðaleiganda Pressunnar. Auk þess var samhliða tilkynnt um útgáfu mánaðalegs blaðs Eyjunnar sem átti að fylgja frítt með Fréttablaðinu. Hætt hefur verið við þá útgáfu.
Sjónvarpsþátturinn Eyjan hóf svo göngu sína í maí.
Björn Ingi Hrafnsson, sem stýrir þættinum, er orðinn einn umsvifamesti fjölmiðlamaður landsins. Hann er stærsti eigandi Pressunnar, sem á vefina Eyjuna, Pressuna og Bleikt, og fer fyrir hópi sem keytpi um 70 prósent hlut í útgáfufélagi DV, sem á og rekur DV og DV.is, undir lok síðasta árs. Hann er nú útgefandi og stjórnarformaður DV.