Gústaf Níelsson, nýskipaður varamaður Framsóknar og flugvallavina í Mannréttindaráði Reykjavíkur, skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2005, undir fyrirsögninni Að elska sitt eigið kyn, þar sem hann fordæmdi lagafrumvarp sem gerði samkynhneigðum kleift að ættleiða börn og ganga í hjónaband.
Skipunin hefur vakið hörð viðbrögð og ekki síst innan Framsóknarflokksins en á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt skipunina eru Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, Jóhanna María Sigmundsdóttir þingmaður og Birkir Jón Jónsson oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi.
Sagði samkynhneigð óeðlilega
Í áðurnefndri grein skrifar Gústaf Níelsson, sem er sagnfræðingur að mennt: „Er það ekki hámark sjálfselskunnar að leggja ást á sitt eigið kyn, og slík ást getur aldrei borið ávöxt. En úr því að sú nöturlega staðreynd blasir við, er réttast að gera þá kröfu á ríkið að börn séu til útdeilingar handa hommum og lesbíum í hjónabandi - í jafnréttisskyni. Þá er auðvitað enginn að huga að þeim sjálfsögðu mannréttindum barna, að eiga bæði föður og móður, sem öll börn jú eiga, því ekkert barn verður til nema fyrir tilverknað sæðis karls og eggs konu. Ég geri ráð fyrir því að umboðsmaður barna hafi einhverja rökstudda skoðun á þessu, eða eru sjónarmið hans óþörf í mannréttinda- og jafnréttisbaráttu homma og lesbía?“
Í greininni gengur Gústaf svo langt að kalla samkynhneigð afbrigðilega. „Það hefur löngum verið þekkt að sumt fólk leggur ást á sitt eigið kyn, en það er ekki þar með sagt að slík háttsemi sé eðlileg, heldur þvert á móti. En hin kristnu samfélög Vesturlanda eru frjálslynd og umburðarlynd. Þau skilja að sum okkar eru öfugsnúin og afbrigðileg og láta refsilaust í dag, enda kærleiksboðskapurinn grunntónn í trúnni. En fyrr má nú rota en dauðrota, það var aldrei meiningin að leiða hið afbrigðilega og ófrjóa til öndvegis.“
Gústaf segir í greininni að íslenskt samfélag hafi á undanförnum árum komið verulega til móts við samkynhneigða. Lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar feli í sér margháttaðar réttarbætur, sem margir geti fallist á. „En mörkin hljótum við að draga við frumættleiðingu (með hliðsjón af mannréttindum barna) og giftingu í kirkjum landsins. Samkynhneigðir geta mér að meinalausu stofnað sína sérkirkju og iðkað þar sína homma- og lesbíuguðfræði og lagað hana að sínum hugmyndaheimi. En á því er enginn áhugi, vegna þess að það á að knésetja þjóðkirkjuna með góðu eða illu, en kljúfa hana ella.“