Sony Pictures kvikmyndaframleiðandinn hefur ákveðið að sýna kvikmyndina umdeilu The Interview í völdum kvikmyndahúsum á jóladag. Sony hafði áður tilkynnt að myndin yrði ekki sýnd vegna hótanna, sem taldar eru runnar undan rifjum stjórnvalda í Norður Kóreu, um að hryðjuverk yrðu framin ef myndin yrði sýnd. Ástæðan er sú að söguþráður The Interview snýst um áætlun tveggja bandarískra blaðamanna að drepa leiðtoga asíska einræðisríkisins, Kim Jong Un. Auk þess er leiðtoginn sýndur sem hinn mesti fáráður.
Nú hefur verið ákveðið að myndin verði tekin til sýninga og því hefur verið fagnað Í Bandaríkjunum sem miklum sigri fyrir frelsið. Barack Obama, forseti landsins, hafði gagnrýnt ákvörðun Sony um að láta undan kröfum Norður Kóreu-manna, lýsti yfir mikilli ánægju með það að myndin yrði sýnd. Talsmaður hans sagði við við fréttamenn í gær að Bandaríkin væru land sem tryði á málfrelsi og rétt listamanna til að tjá sig. Því væri viðsnúningur Sony og þeirra kvikmyndahúsa sem ætla að taka myndina til sýninga mjög ánægjulegur.
Seth Rogen, annar aðalleikari myndarinnar, var líka ánægður. Hann setti eftirfarandi skilaboð á Twitter í gær:
The people have spoken! Freedom has prevailed! Sony didn't give up! The Interview will be shown at theaters willing to play it on Xmas day!
— Seth Rogen (@Sethrogen) December 23, 2014
Besta kvikmynd sögunnar...samkvæmt IMDB
Ljóst er að The Interview hefði aldrei fengið jafn mikla athygli og raun ber vitni ef kvikmyndaframleiðandinn Sony Pictures hefði ekki orðið fyrir stórfelldri tölvuárás í nóvember. Þar var trúnaðargögnum og eintökum af óútgefnum kvikmyndum stolið. Hluti þessarra gagna var síðan lekið út og ollu miklu fjaðrafoki.
https://www.youtube.com/watch?v=DkJA1rb8Nxo
Bandaríska alríkislögreglan FBI segist hafa fengið það staðfest að Norður Kórea standi að baki tölvuárásinni og að ástæðan sé umrædd kvikmynd, The Interview. Stjórnvöld í Norður Kóreu hafa reyndar neitað þessu staðfastlega en Bandaríkjamenn virðast vissir í sinni sök. Ákvörðun Sony Pictures um að fresta sýningu myndarinnar vegna hótanna um hryðjuverk hefur verið harðlega gagnrýnd.
Þessi gagnrýni hefur verið sett fram með ýmsum hætti. Til að mynda hafa rúmlega 40 þúsund manns gefið myndinni 10 í einkunn á vefnum Internet Movie Data Base, eða IMDB. Þar er meðaleinkunn hennar 9,9 og samkvæmt því er hún besta kvikmynd sögunnar. Sem hefur vakið athygli því að hún hefur ekki, líkt og áður sagði, verið sýnd almenningi.