Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, minnir reglulega á sig með skrifum í Morgunblaðið þótt hann sé formlega hættur í stjórnmálum. Í ágúst skrifaði hann grein þar sem hann sagði Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Bjarna Benediktsson vera langt komna með að koma Íslandi í fremstu röð allra þjóða í Evrópu með stjórnvisku sinni. Guðni sagðist ekki hafa neina trú á öðru en að hinn almenni kjósandi sé samþykkur þeirra verkum og finni breytingu til batnaðar í veskinu sínu. Í greininni reyndi Guðni einnig að útskýra mikið fylgi Pírata. Hann sagði stöðu flokksins, sem hefur mælst langstærsti flokkur landsins nánast allt þetta ár, vera vegna þess að „einhver pólitískur skringileiki gerir það að verkum að þriðji hver kjósandi hótar að kjósa Pírata næst. Hvers vegna, það veit enginn.“
Guðni blés rykið af ritvélinni aftur í liðinni viku og reyndi á ný, með hæðni og dass af fyrirlitningu, að greina hið pólitíska landslag. Greinin birtist vitanlega í Morgunblaðinu að venju og í henni sagði hann Pírata oft minna „á okkar mesta stjórnmálamann, Ragnar Reykás. Þeir geta nefnilega skipt um skoðun og skammað sjálfa sig fyrir vitleysuna – sem er svo einlægt og yndislegt“. Fyrir þá sem ekki þekkja til Ragnars Reykás þá var hann persóna í þáttum Spaugstofunnar sem skipti ítrekað um skoðun á öllu milli himins og jarðar á augabragði.
Hann sagði Pírata, sem mælast með 36 prósent fylgi, vera á „furðuflugi í vinsældum“ og sagði einu flokkanna sem séu með grasrót og bakland vera Sjálfstæðisflokk (sem mælist með 21,6 prósent fylgi) og Framsóknarflokk ( sem mælist með 11,1 prósent fylgi).
Guðni er ekki eini íhaldsmaðurinn, með miklar rætur í sérhagsmunapólitík fyrri tíma, sem hefur lagt til atlögu gegn Pírötum á opinberum vettvangi og reynt að gera lítið úr þeirri bylgju sem safnast hefur upp að baki þeirra. Þeir eiga það hins vegar allir sameiginlegt að skilja ekki þá breytingu sem orðið hefur á samfélagi manna með upplýsingarbyltingu internetsins og tæknibyltingunni sem fylgdi í kjölfarið. Krafa fólks um að hafa ríkari aðkomu að ákvörðunartöku um stærstu málin sem snerta líf þess endurspeglast í því mikla fylgi sem Píratar mælast með um þessar mundir. Það er ekki merki um að kjósendur skynji ekki stjórnvísi ráðandi afla heldur að þeir séu í auknum mæli að hafna henni. Og því oftar sem Guðni Ágústsson og hans líkir tala niður til þjóðarinnar vegna þessa, því fleiri virðast bætast í hóp þeirra sem vilja grundvallarbreytingu á íslenskum stjórnmálum, og íslensku samfélagi.
Píratar vonast því örugglega eftir því að Guðni hamri sem flestar yfirlætisfullar háðsgreinar og birti í Mogganum, því í hvert sinn sem hann gerir það virðist væntanlegum kjósendum þeirra fjölga.