Það kann að koma ungu fólki spánskt fyrir sjónir að Íslendingar hafi hópast fyrir framan sjónvarpið til þess að horfa á kraftajötna draga vörubíla og kasta trédrumbum yfir slá. Þetta var þó hluti af sjálfsmynd Íslendinga á níunda og tíunda áratug seinustu aldar. Þegar íslenskir aflraunamenn voru þeir allra sterkustu í heiminum.
Skúli setur tóninn
Austfirðingurinn Skúli Óskarsson er sennilega mikilvægasti keppandinn í íslensku kraftasporti frá upphafi. Skúli hóf að æfa lyftingar seint á sjöunda áratugnum og keppti í sínu fyrsta móti árið 1970. Honum gekk vel og setti hvert Íslandsmetið á fætur öðru næstu árin. Hann keppti einnig á alþjóðlegum lyftingamótum og náði t.a.m. silfri í léttvigtarflokki á heimsmeistaramótinu árið 1978 í Turku í Finnlandi. Það ár var hann verðlaunaður titlinum íþróttamaður ársins hér heima, fyrstur allra lyftingamanna. Tveimur árum seinna setti hann heimsmet í réttstöðulyftu þegar hann lyfti 315,15 kílógrömmum. Þetta var fyrsta heimsmet sem nokkur Íslendingur setti í almennt viðurkenndri íþrótt.
Það ár var hann aftur valinn íþróttamaður ársins. Skúli náði aldrei að vinna heimsmeistaratitil en auk silfursins vann hann tvö bronsverðlaun á HM, þrjá Norðurlandameistaratitla og fjölmarga titla innanlands. Skúla verður þó sennilega ekki minnst fyrir öll lyftingaafrekin sem hann áorkaði heldur vegna persónuleikans. Skúli var og er einn hressasti og skemmtilegasti íþróttamaður sem Íslendingar hafa átt.
Hann öskraði og kallaði til áhorfenda á mótum með alls kyns hnyttni og hann grínaðist mikið í viðtölum. Jafnframt kom hann alltaf fram af miklu æðruleysi og bar alltaf virðingu fyrir mótherjum sínum en á þessum tíma voru engir peningar í íþróttinni og Skúli borgaði mest allt undir sig sjálfur. Hann var í miklum metum hjá fjölmiðlamönnum á borð við Ómari Ragnarssyni og Hermanni Gunnarssyni og varð stjarna hér á landi. Laddi samdi meira að segja um hann lag. Skúli laðaði marga að íþróttinni og hratt af stað hinni íslensku kraftabyltingu.
Sterkastir í heimi
Eftir að Skúli kom Íslandi á kortið í heimi lyftinganna náðu Íslendingar prýðisgóðum árangri á alþjóðlegum mótum. Kári „köttur” Elísson vann silfur í fluguvigt á heimsmeistaramóti árið 1985 og Guðni Sigurjónsson varð fyrsti íslenski heimsmeistarinn þegar hann sigraði í þungavigt árið 1991. Það var þó ekki í kraftlyftingum sem Íslendingar náðu markverðasta árangrinum. Árið 1977 var keppninni Sterkasti maður heims komið á fótinn, alhliða aflraunakeppni þar sem menn úr öllum þyngdarflokkum kepptu um einn titil. Keppt var í ýmsum greinum eins og t.d. trukkadrátti, reipitogi og lóðakasti. Keppnin var í upphafi hálfgerð brella sem var gerð fyrir amerískt sjónvarp og fáir tóku eftir. En á níunda áratugnum varð keppnin alþjóðleg og þá komu íslenskir keppendur til leiks.
Jón Páll Sigmarsson hafði unnið fjölmarga titla í kraftlyfingum þegar hann tók í fyrsta skipti þátt í keppninni árið 1983 í Nýja Sjálandi. Þar hlaut hann silfur en ári seinna vann hann keppnina og var krýndur sterkasti maður heims. Jón Páll vann alls fjóra titla í keppninni og aldrei lenti hann neðar en í þriðja sæti.
Jón Páll var einn ástsælasti íþróttamaður Íslands fyrr og síðar. Rétt eins og Skúli þá átti hann frábært samband við bæði áhorfendur og fjölmiðlamenn. Hann tók sig ekki of alvarlega og gleðin skein af honum. Árið 1991 meiddist Jón Páll og Magnús Ver Magnússon tók sæti hans á mótinu. Magnús var hæglátari og menn bjuggust ekki við jafn miklu af honum og Jóni Páli. Hann sannaði þó hvers hann var megnugur og sigraði á sínu fyrsta móti. Árið 1996 hafði hann unnið fjóra titla og þar með jafnað árangur Jóns Páls.
Á árunum 1983 til 1996 má segja að Íslendingar hafi haft algera yfirburði á mótinu. Algjört æði greip um sig hér á landi og Íslendingar voru farnir að tala um sig sem sterkustu þjóð heims. Keppnin fékk mikið áhorf í sjónvarpi og árið 1992 var hún meira að segja haldin hér á landi.
Íslendingar missa takið
Eftir að Magnús Ver vann sinn seinasta titil árið 1996 dofnaði áhugi þjóðarinnar hægt og bítandi á íþróttinni. Torfi „loðfíll” Ólafsson sem keppti á árunum 1997 til 1999 náði ágætum árangri en meiðsli hömluðu honum. Íslendingar áttu ekki keppanda í lokakeppni Sterkasta manns heims árið 2000, í fyrsta skipti síðan árið 1982. Reyndar áttu Íslendingar ekki keppanda í lokakeppninni næsta áratuginn. Innkoma keppenda frá Austur-Evrópu, þar sem lyftinga-og kastíþróttahefðin er mjög sterk, hefur raskað valdajafnvæginu. Austur-Evrópumenn hafa unnið 10 af seinustu 14 keppnum, þar af hefur Pólverjinn Mariusz Pudzianowski unnið fimm sinnum og þar með tekið fram úr Jóni Páli og Magnúsi Ver.
Fæstir Íslendingar hafa þó heyrt minnst á hann því að athygli þjóðarinnar er farin annað. Íslendingar fóru nefnilega að verða bísna góðir í íþróttum almennt. Knattspyrnuliðin fóru allt í einu að vinna leiki og hafa tryggt sér sæti á Evrópumeistaramóti, stelpurnar tvisvar. Strákarnir okkar í handboltalandsliðinu hafa tekið tvær medalíur á stórmótum. Meira að segja körfuknattleiksliðið hefur spilað á Evrópumeistaramóti. Þeir sem fylgjast með jaðarsporti hampa cross-fit stjörnum okkar, ekki síst Annie Mist Þórisdóttur, og bardagakappanum Gunnari Nelson. Cross-fit og MMA eru einmitt dæmi um nýjar og spennandi íþróttir sem kraftakeppnir eiga erfitt með að keppa við. Kraftakeppnir eru hreinlega orðnar gamaldags.
Fjallið
Einn maður skarar fram úr í kraftasporti á Íslandi í dag. Hafþór Júlíus Björnsson varð heimsfrægur fyrir það að leika Sandor Clegane, eða „Fjallið”, í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones og hefur það viðurnefni fest sig við hann. Hafþór hóf að keppa í kraftasporti árið 2009 aðeins 21 árs gamall. Hann er 205 cm á hæð, mun hærri en flestir mótherjar hans og hefur mest verið um 200 kíló að þyngd.
Vegna hreinna líkamlega yfirburða hefur Hafþór ekki haft neina samkeppni að ráði á Íslandi undanfarin ár. Hann hefur unnið keppnina Sterkasti maður Íslands seinustu fimm ár og tvö seinustu ár hefur hann unnið keppina Sterkasti maður Evrópu. Hann hefur tekið þátt í Sterkasta manni heims á hverju ári síðan 2011 en aldrei unnið. Þrisvar hefur hann náð þriðja sætinu og árið 2014 endaði hann í öðru sæti, einungis hálfu stigi frá sigri. Milli þess að hann klýfur menn í herðar niður í sjónvarpinu þá keppir hann allan ársins hring í aflraunamótum víðs vegar um heiminn.
Hann er aðeins 26 ára gamall og á vafalaust eftir að landa stóra titlinum á komandi árum. Hvort slíkur sigur myndi duga til að vekja Íslendinga úr rotinu verður að koma í ljós. Það er þó ljóst að jarðvegurinn hér er frjór í kraftasporti. Lyftingar, vaxtarrækt, cross-fit og fleira nýtur tölverðra vinsælda og mýtan um Ísland sem sterkustu þjóð heims dvelur í undirmeðvitundinni. Það yrði jákvætt ef keppnin Sterkasti maður heims yrði aftur jafn vinsæl og hún var því hún reyndist okkur nefnilega vel. Hún sýndi okkur í fyrsta skipti að við gætum keppt í íþróttum við aðrar þjóðir…..og unnið. Hafþór, komdu með titilinn heim.