Þrettán þingmenn Pírata, Flokks fólksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga er varðar tímabundið atvinnuleyfi. Þingmennirnir vilja að þeir einstaklingar sem fá dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þurfi ekki að sækja um atvinnuleyfi sérstaklega heldur verði þeim heimilt að vinna þegar þeir hafa fengið dvalarleyfi.
Fyrsti flutningsmaður er Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata. Með henni eru þau Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Páll Jóhannsson, Oddný G. Harðardóttir, Sigmar Guðmundsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Í greinargerðinni kemur fram að með frumvarpinu sé lagt til að útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla við landið samkvæmt lögum um útlendinga verði undanþegnir kröfu um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi.
Fjöldi einstaklinga með dvalarleyfi en fær ekki að vinna
„Með því er átt við að þeir einstaklingar sem fá dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, til dæmis vegna þess að þeir uppfylla ekki skilyrði þess að fá alþjóðlega vernd, þurfi ekki að sækja um atvinnuleyfi sérstaklega heldur verði þeim heimilt að vinna þegar þeir hafa fengið dvalarleyfi.
Núverandi fyrirkomulag leiðir til þess að hér á landi dvelur talsverður fjöldi einstaklinga sem hefur fengið heimild til dvalar af framangreindum ástæðum, án þess að hafa heimild til þess að sjá fyrir sér með atvinnuþátttöku,“ segir í greinargerðinni.
Þá er bent á að atvinnuleyfisumsóknir einstaklinga með dvalarleyfi af þessu tagi séu jafnan samþykktar hjá Vinnumálastofnun en ferlið feli engu að síður í sér hindranir sem takmarka aðgengi þeirra að vinnumarkaði.
Þess er getið að breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafi áður verið lagðar fram í frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Það frumvarp sé þó þeim ágalla haldið að þrátt fyrir þær jákvæðu breytingar sem hafi verið að finna í því hefði frumvarpið að geyma aðrar breytingar á lögum um útlendinga sem ágreiningur sé um. Hafi þær komið í veg fyrir að þær óumdeildu breytingar sem lagðar eru hér fram nái fram að ganga.