Það eru ekki eingöngu mikilvægt að fjárfestar séu upplýstir um hvernig verðbréfamarkaðir virka og hvernig skráð félög starfa. Landsmenn allir eru ýmist beinir eða óbeinir þátttakendur á verðbréfamarkaði og grunnþekking á verðbréfamörkuðum veitir nauðsynlegt aðhald. Þetta sagði Baldur Thorlacius, forstöðumaður eftirlitssviðs Kauphallarinnar, í fyrirlestri á Popup ráðstefnu í tilefni af Alþjóðlegri viku fjármálalæsis fyrir helgi. „Við erum öll þátttakendur í gegnum lífeyrissjóðskerfið,“ benti Baldur á.
Hann líkti verðbréfamarkaðinum við lýðræði. „Lýðræðið virkar ekki nema fólk nýti rétt sinn og kjósi. Sama gildir á verðbréfamarkaði, fyrir bæði beina og óbeina þátttakendur. Því fleiri sem kynna sér málin, skoða hlutina og tileinka sér gagnrýna hugsun, því skilvirkari og dýpri verður markaðurinn.“
Fjárfestaverndin nýtist ekki öðrvísi
Baldur hóf mál sitt á að útskýra fjárfestavernd og þær ströngu reglur sem ríkja um verðbréfaviðskipti. Reglurnar segi til um hvernig upplýsingar birtast og hvar þær séu aðgengilegar. Annars vegar sé um að ræða upplýsingar sem sýni áhuga annarra fjárfesta á tilteknum verðbréfum og hins vegar séu það upplýsingar frá skráðum félögum eða stofnunum á markaði. „Það eru stífar lagakröfur um að upplýsa um allt sem viðkemur mati á virði verðbréfanna. Þessar upplýsingar eiga að vera aðgengilegar í rauntíma,“ útskýrði Baldur.
„Fjárfestaverndin sem felst í þessu nýtist ekki nema við höfum þekkingu til þess að nota hana og gefum okkur tíma til þess að meta upplýsingarnar.“ Hann mælti með því að fólk sæki þau námskeið og fyrirlestra sem bjóðast, auk þess sem finna megi mikið af ókeypis fræðsluefni á netinu. „Og ef fólk hefur áhuga á að fjárfesta þá er mikilvægt að afla sér upplýsinga um félögin, bæði frá fyrirtækjunum sjálfum og í fjölmiðlum.“
Aftur á móti sé það vandasamt verk að fjárfesta og að gera þurfi greinarmun á gæðum fyrirtækis og gæðum fjárfestingar. Stundum geti verð hlutabréfa í stöndugum fyrirtækjum verið of hátt og það lækkað, jafnvel þótt fyrirtækið sé áfram gott og vel rekið. Ekki sé heldur nægilegt að kynna sér upplýsingar um fyrirtækið og markaði í upphafi fjárfestingar, heldur þurfi jafnframt að fylgjast með mögulegum breytingum.
„Þetta er ekki einfalt fyrir einstaklinga og því er það kostur að velja fjárfestingasjóði eða eignastýringarfélög. En þá komum við aftur inn á þetta, það er mikilvægt að búa yfir ákveðinni grunnþekkingu til þess að geta veitt sjóðunum aðhald.“