„Þetta er bara eins og að fara með rangt barn heim af róló og halda svo áfram að kynna það fyrir fjölskyldu og vinum sem sitt eigið,“ sagði Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um viðbrögð Bankasýslu ríkisins við umfjöllun Ríkisendurskoðunar um villur í Excel-skjali, sem Bankasýslan sjálf sendi inn til Ríkisendurskoðunar í vor undir heitinu „Staða tilboðsbókar þegar leiðbeinandi verð og magn voru ákvörðuð 22 mars 2022“.
Guðmundur Björgvin kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun og gagnrýndi þar orð Lárusar Blöndal stjórnarformanns Bankasýslunnar um áðurnefnt Excel-skjal á fundi nefndarinnar í lok síðustu viku, og fullyrti að Lárus hefði á fundinum með nefndinni „talað gegn betri vitund“.
Í máli Lárusar á fundinum á föstudag kom meðal annars fram að á fundi með ríkisendurskoðanda hefðu fulltrúar Bankasýslunnar gengið eftir og fengið staðfestingu á því að Ríkisendurskoðun gerði engan ágreining um að Bankasýslan hefði haft rétt og villulaust skjal í höndunum er leiðbeinandi lokaverð var ákvarðað í útboðinu í mars.
„Þetta er bara alvarlegt mál, ég veit ekki hvað vakir fyrir Bankasýslunni þegar hún gerir þetta, en ég segi bara hér sem trúnaðarmaður Alþingis og sem ríkisendurskoðandi að málflutningur Bankasýslunnar um þetta atriði er bara alls ekki við hæfi og eingöngu til þess fallinn að skapa upplýsingaóreiðu og afvegaleiða umræðu þings og almennings um það hvað þetta mál snerist um,“ sagði ríkisendurskoðandi á fundi nefndarinnar í morgun.
Í máli hans kom fram að hann liti svo á hann legði starfsheiður sinn að veði í hvert sinn sem hann skilaði skýrslu til Alþingis, og ítrekaði að enginn misskilningur væri hjá Ríkisendurskoðun hvað þetta atriði varðaði, fullyrðingar Bankasýslunnar um það væru að hans mati „eftiráskýringar og yfirklór“.
„Það sem við báðum Bankasýsluna um var staða tilboðabókar þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin. Þetta erum við að biðja um sirka 20. maí, ef ég man rétt. Við fáum frá Bankasýslunni skjal og hún í svörum sínum til okkar, svarar út frá þessu skjali,“ sagði Guðmundur Björgvin.
Samráðið „með ólíkindum, algjörlega fordæmalaust“
Ríkisendurskoðandi sagði einnig að samráð við Bankasýsluna í umsagnarferlinu hefði að hans mati verið verið „með ólíkindum, algjörlega fordæmalaust“.
„Þeir voru boðaðir á fund, Bankasýslan, sem er ekki alvanalegt þegar skýrslur eru í umsagnarferli, en þar lögðu þeir fyrir Ríkiendurskoðun meðal annars hvernig við ættum að afmarka okkar vinnu og hvernig við hefðum átt að vinna þessa skýrslu,“ sagði Guðmundur Björgvin.
Ríkisendurskoðandi bætti við að strax í upphafi úttektarvinnu Ríkisendurskoðunar hefði komið fram í máli fjármálaráðuneytis að menning Bankasýslunnar „einkenndist meira af fjármálamarkaði heldur en opinberrar stjórnsýslu“ og að hann teldi „að í rauninni allt sem hefur gerst og átt sér stað í málflutningi Bankasýslunnar síðan þessi skýrsla var gefin út sem og í umsagnarferli staðfesti þetta“.