„Þetta er nú meiri ræfildómurinn hjá Alþingi Íslendinga. Níu ár og fjórar kosningar eru liðnar frá því þjóðin samþykkti með 2/3 hluta atkvæða vilja sinn til að lögfest yrði ný stjórnarskrá – sem í grundvallaratriðum var samin af þjóðinni sjálfri.“
Þetta skrifar Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, í stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi.
Vísar hún í það að í gær felldi meirihlutinn á Alþingi ásamt Miðflokknum, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sat hjá, að þing yrði kvatt saman að nýju eigi síðar en 12. ágúst næstkomandi til sérstaks fundar um stjórnarskrármál. Um svokallaðan þingstubb hefði verið að ræða.
Enn eitt kjörtímabilið farið í súginn
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata var fyrsti flutningsmaður tillögunnar en hann tjáði sig um málið á Faceobok í gær þar sem hann sagði að stjórnarþingmenn hefðu í framhaldi af atkvæðagreiðslunni hafnað tækifæri til að gera gott úr stöðunni sem nýja stjórnarskráin hefði verið komin í undir lok kjörtímabilsins.
„Þetta hefði gefið næsta þingi færi á að koma þjóðarviljanum í framkvæmd sem fyrst að loknum kosningum. En nei, meirihlutinn mátti ekki heyra á það minnst og kolfelldi þessa tillögu mína. Enn eitt kjörtímabilið er farið í súginn!“ skrifar Andrés Ingi.
Stjórnarflokkarnir taka þennan Svarta Pétur með sér inn í kosningar
Jóhanna spyr í færslu sinni á Facebook hvar í hinum vestræna heimi það hefði verið liðið að þjóðþing myndi hunsa þjóðarvilja þar sem þjóðin er stjórnaskrárgjafinn.
„Ekki einu sinni var vilji hjá Katrínu forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar til að samþykkja nú fyrir kosningar að hægt væri að breyta stjórnarskránni á næsta kjörtímabili, án þess að boða þyrfti til kosninga. Kjósendur geta því gengið útfrá því að óbreytt ríkisstjórn mun aldrei samþykkja breytingar á stjórnarskránni á næsta kjörtímabili. Í anda þjóðarviljans. Þennan Svarta Pétur taka íhaldsflokkarnir í núverandi ríkisstjórn með sér inn í næstu kosningar,“ skrifar fyrrverandi ráðherra.
Þetta er nú meiri ræfildómurinn. hjá Alþingi Íslendinga. Níu ár og fjórar kosningar eru liðnar frá því þjóðin...
Posted by Jóhanna Sigurðardóttir on Tuesday, July 6, 2021