Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur þingmanni Pírata, og öðrum nýjum þingmönnum, var á dögunum úthlutað netfangi frá Alþingi. Arndís Anna fékk netfangið arndis.anna.kristinardottir.gunnarsdottir@althingi.is en undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag gagnrýndi hún lengd netfangsins.
„Ég hef sjálf oft um ævina átt í tölvupóstsamskiptum við þingmenn og hef þá sent póst á netföng eins og helgihrafn@althingi.is, andresingi@althingi.is eða birgir@althingi.is. Már var hinsvegar úthlutað netfanginu arndis.anna.kristinardottir.gunnarsdottir@althingi.is – heil 53 stafbil. Tölvupóstfang sem er lengra en meðaltölvupóstur,“ sagði hún.
Þegar Arndís Anna óskaði eftir því að fá þessu breytt var henni tjáð að nýjar reglur frá „einhverri nefnd í fjármálaráðuneytinu kveði á um að netföng þingmanna og starfsfólks þingsins skuli mynduð með þessum hætti héðan af“.
Reglurnar þjóna engum tilgangi
Þingmaðurinn benti á að það að fulltrúar á þingi væru aðgengilegir væri mikilvægur þáttur í lýðræðinu.
„Þingmenn eru ekki starfsmenn stjórnsýslunnar, sem starfa nafnlaust í hennar nafni og eiga ekki að þurfa að þola óþarfa ágang frá almenningi. Þingmenn eru ekki starfsmenn þingsins, sem einnig eiga að njóta verndar í störfum sínum.
Þingmenn eru fulltrúar almennings í löggjafarsamkundu þjóðarinnar. Af því leiðir að þingmenn eiga að vera eins aðgengilegir og kostur er, að virtri lágmarkspersónuvernd, sem einnig er afar takmörkuð fyrir fólk í slíkri opinberri stöðu. Reglan þjónar í ofanálag engum tilgangi og leysir vandamál sem er ekkert,“ sagði hún.
Arndís Anna sagði jafnframt að þetta væri hugsanlega lítill prófsteinn á sjálfstæði löggjafarsamkundu þjóðarinnar en prófsteinn engu að síður. „Ég vil því biðla til forseta að beita sér fyrir því að Alþingi þurfi ekki að beygja sig undir óþarfa duttlunga stjórnsýslunnar, sem í ofanálag stríða gegn þeim mikilvæga þætti lýðræðisins, að fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi séu almenningi eins aðgengilegir og kostur er.“