Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, hafði ítrekuð afskipti af skuldamáli verktakafyrirtækisins Fjarðargrjóts ehf., gagnvart fjármögnunarfyrirtækinu Lýsingu. Þetta kom fram í máli Jóns í ræðustóli Alþingis í gær, en verktakafyrirtækið styrkti framboð þingmannsins í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í fyrra um fimmtíu þúsund krónur. Þá gagnrýndi hann vinnubrögð fjármögnunarfyrirtækisins sömuleiðis í ræðu sinni í gær.
Jón kvað sér hljóðs í þingsalnum í kjölfar ræðu Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, sem gagnrýndi innheimtuhörku banka og fjármálastofnanna gagnvart fólki.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum fékk Jón hæstu framlögin til prófkjörs á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, en framlög til þess námu tæpum 2,8 milljónum króna. Framboðið var auk þess það dýrasta í Suðvesturkjördæmi. Framlögin til framboðs Jóns komu meðal annars frá sjávarútvegs- og verktakafyrirtækjum.
„Ég gerði ítrekaðar tilraunir í síðustu viku og síðustu tíu daga, til þess að ná sambandi við forystumenn Lýsingar, til þess að fá á þessu skýringar, [...]“
Málið sem Jón ljáði máls á í ræðustóli Alþingis í gær, undir dagskrárliðnum umræður um störf þingsins, snérist um dómsmál áðurnefnds verktakafyrirtækis og fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar. Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness í júlí, þar sem Lýsingu var heimilað að fá ellefu vinnuvélar og einn fólksbíl, auk annarra tækja, tekin með beinni aðfararaðgerð úr vörslu Fjarðargrjóts. Fyrirtækin gerðu með sér kaupleigusamninga, með ólögmætri gengistryggingu, vegna tækjanna, sem verktakafyrirtækið efndi ekki vegna deilna um endurútreikninga á samningunum. Lýsing rifti samningnum í byrjun október árið 2012, en þá námu vanskil Fjarðargrjóts gagnvart Lýsingu tæpum 65 milljónum króna.
Í ræðu sinni sagði Jón að Lýsing hefði metið tækin á 46 milljónir króna, en þau hafi verið seld á nauðungaruppboði fyrir 73 milljónir. Þá sagði hann markaðsvirði tækjanna nema tæpum 120 milljónum króna. „Þetta er auðvitað mjög sláandi dæmi. [...] Ég gerði ítrekaðar tilraunir í síðustu viku og síðustu tíu daga, til þess að ná sambandi við forystumenn Lýsingar, til þess að fá á þessu skýringar, og satt best að segja fékk ég engin svör við því, þrátt fyrir að hafa talað þar við fleiri en einn starfsmann og lagt inn skilaboð og sent tölvupósta til þess að ítreka mál mitt.“
Jón hyggst leita með málið til Fjármálaeftirlitsins, og segir að Samtök iðnaðarins hafi sömuleiðis leitað skýringa hjá Lýsingu vegna sambærilegra mála, og ekki fengið svör. „Og ég spyr virðulegi forseti, ef það er ekki vörn í lögum fyrir samborgara okkar, fyrirtæki og einstaklinga, í málum sem þessum, þá er eitthvað brogað í okkar löggjöf, og ég bara vona það að þetta séu dæmi sem að Fjármálaeftirlitið sjái ástæðu til þess að fara og skoða betur,“ sagði Jón Gunnarsson í ræðustóli Alþingis í gær.