Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, verður kölluð á fund velferðarnefndar Alþingis, að beiðni Ragnheiðar Ríkharðsdóttur fulltrúa Sjálfstæðisflokks í nefndinni, vegna viðbragða stofnunarinnar við nýju áliti Umboðsmanns Alþingis.
Samkvæmt áliti umboðsmanns braut Tryggingastofnun lög með því að láta sérstakt viðbótarskilyrði fyrir greiðslum örorkubóta tvö ár aftur í tímann, þar sem kveðið var á um "sérstakar aðstæður." Tryggingastofnunin hefur þannig synjað umsóknum um afturvirkar örorkulífeyrisbætur á þeim rökum að skilyrðið sé ekki uppfyllt.
Í tilkynningu frá stofnuninni í kjölfar álits Umboðsmanns Alþingis sagði: "Telji einhver að réttur hafi verið brotinn vegna synjunar á afturvirkum greiðslum er bent á að hægt er að óska endurupptöku á málinu hjá stofnuninni." Þannig virðist Tryggingastofnun ekki ætla að hafa frumkvæði að því að leiðrétta fyrri ákvarðanir sínar. Varaformaður Sjálfsbjargar hefur gagnrýnt viðbrögð Tryggingastofnunar.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir gagnrýnir sömuleiðis viðbrögð Tryggingastofnunar og vill að forstjóri stofnunarinnar geri grein fyrir afstöðu hennar. "Samkvæmt áliti umboðsmanns braut Tryggingastofnun gegn skjólstæðingum sínum. Í ljósi þess skorti alla auðmýkt í viðbrögð stofnunarinnar við áliti umboðsmanns. Auðvitað á stofnunin að hafa frumkvæði að því að leiðrétta hlut sinna skjólstæðinga og fara yfir þær synjanir sem hún hefur veitt í krafti þessa ákvæðis," segir Ragnheiður í samtali við Kjarnann.
"Ég lít ávirðingar umboðsmanns mjög alvarlegum augum. Það er mjög alvarlegt þegar Umboðsmaður Alþingis gerir athugasemdir við stórnsýslu og verklag opinberra stofnanna með þessum hætti."
Forstjóri Tryggingastofnunar hefur verið boðaður á fund velferðarnefndar miðvikudaginn 15. október, ásamt fulltrúum frá Öryrkjabandalagi Íslands og Þroskahjálp.