Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag að einungis tveir ráðherrar verða til svara á morgun í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þingmenn gagnrýna ráðherraliðið fyrir slíkt en stjórnarandstaðan var harðorð í garð þess í janúar síðastliðnum.
Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar hóf umræðuna og benti á að í þingskapalögum segði að í allt að hálftíma á fyrirfram ákveðnum þingfundum að jafnaði tvisvar í hverri starfsviku, gæti forseti heimilað þingmönnum að bera fram munnlegar fyrirspurnir til ráðherra án nokkurs fyrirvara. Forsætisráðherra skyldi fyrir klukkan 12 á hádegi undanfarandi föstudag tilkynna forseta hvaða ráðherrar að jafnaði, eigi færri en þrír, yrðu til svara á þingfundum í næstu viku.
„Við höfum áður rætt fjarveru ráðherra hér í þingsal, en nú ber svo við að það eru heimssögulegir viðburðir í gangi sem varða alla íbúa jarðarinnar, en líka á margvíslegan hátt almenning á Íslandi. Á morgun háttar svo til að einungis tveir af 12 ráðherrum í ríkisstjórn Íslands treysta sér til að mæta hér við óundirbúinn fyrirspurnatíma. Það sætir furðu á slíkum tímum að ekki skuli fleiri treysta sér til að koma hingað og svara þingmönnum og spurningum þeirra,“ sagði hún.
Birgir Ármannsson forseti Alþingis svaraði og sagði að honum væri reyndar ekki kunnugt um að slíkt mannfall hefði orðið í ráðherraliðinu varðandi morgundaginn en hann myndi hins vegar taka það til athugunar hvort hægt væri að bæta úr þessu þannig að það yrðu ekki færri en þrír til andsvara á morgun.
„Með mikilvægustu dagskrárliðum hér í þessum þingsal“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata þakkaði Helgu Völu fyrir að vekja athygli á þessu og fyrir að vekja athygli forseta á þessu, sem virtist hafa tekið vel í þessa beiðni og væri það vel.
„Ég vil hins vegar árétta að mögulega er líka tilefni til þess að auka tækifæri stjórnarandstöðuþingmanna til að fara í óundirbúnar fyrirspurnir. Þessar reglur voru settar upp þegar það voru talsvert færri flokkar á þingi en núna. Og raunar mætti alveg íhuga að fjölga þeim fyrirspurnum sem mega koma fyrir ráðherra vegna þess að það er vissulega að mörgu að spyrja og að mörgu að huga.
Þessi dagskrárliður er með mikilvægustu dagskrárliðum hér í þessum þingsal þar sem stjórnarandstaðan sérstaklega, og jú, stundum stjórnarliðar, fá tækifæri til að veita framkvæmdarvaldinu virkt aðhald í störfum sínum. Þar af leiðandi beini ég því líka til forseta að íhuga hvort ekki megi auka við óundirbúnar fyrirspurnir og tryggja betri mönnun en þrjá ráðherra af 12,“ sagði hún.
Forseti segir að forsætisráðherra hafi ekki brugðist illa við
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata steig næst í pontu undir sama lið og sagði að þessi umræða væri endurtekið efni.
„Ég fletti því upp og 20. janúar áttum við sambærilegt samtal við forseta vegna þess að aðeins tveir ráðherrar höfðu boðað sig í óundirbúnar fyrirspurnir daginn eftir. Þá bar svo við að forseti hafði orðið þess áskynja áður og farið þess á leit við Stjórnarráðið að manna dagskrárliðinn betur en hafði fengið nei frá forsætisráðherra. Ég ætla bara að segja það sama og ég sagði 20. janúar, að við í stjórnarandstöðunni, örugglega öll sem eitt, stöndum með forseta í að fá ráðherra til að mæta hér í þingsal til að svara spurningum þingmanna eins og þeim ber að gera og ef forsætisráðherra bregst jafn illa við beiðni forseta í þetta skiptið og hún gerði 20. janúar þá stöndum við með forseta og Alþingi.“
Birgir svaraði í annað sinn og sagðist vilja geta þess að hann liti ekki svo á að forsætisráðherra hefði brugðist illa við þeirri málaleitan sem átti sér stað 20. janúar síðastliðinn „en aðstæður voru með þeim hætti að ekki var hægt að verða við þrýstingi af hálfu forseta um að fjölga ráðherrum í óundirbúnum fyrirspurnum. Á því er nokkur munur.“
Á sama tíma og ráðherrum hefur fjölgað þá fækkar þeim sem vilja koma
Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins tók undir með þeim sem á undan höfðu komið.
„Ég kom hingað upp síðast líka. Ég held að þetta sé bara því að kenna að skammtímaminni ríkisstjórnarinnar er svona lítið, það er svo stutt síðan þetta var síðast. En kannski er aðalatriðið það að á sama tíma og ráðherrum hefur fjölgað þá fækkar þeim sem vilja koma. Þarf ekki bara að fækka ráðherrum og þá koma fleiri ráðherrar aftur?“ spurði hann að lokum.