Fimm þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram lagabreytingafrumvarp, sem miðar að því að koma í veg fyrir að eigendur félaga sem stunda fjárfestingar geti komist hjá því að reikna sér endurgjald, laun, fyrir að sýsla með eignir félaganna, eða þá að þeir ákvarði sér endurgjald sem „er langt undir því sem almennt gæti talist eðlilegt endurgjald fyrir sambærilega umsjón eigna og fjárfestinga í þágu þriðja aðila“.
Þingmennirnir telja nauðsynlegt að kveða skýrar á um skyldu einstaklinga til þess að reikna sér endurgjald vegna umsjónar og umsýslu með fjárfestingum í eigin félagi, og er þá helst litið til þeirra sem fara með eignarhald í félögum sem geta talist óvirk í skattalegu tilliti, að því leyti sem þau greiða hvorki tekjuskatt né tryggingagjald.
Í greinargerð með frumvarpi þingmanna VG er vísað til þess að gögn í skýrslu stýri- og sérfræðingahóps um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa hjá einstaklingum og fjölskyldum frá 2019 leiði í ljós „töluvert ósamræmi milli fjölda lögaðila í skattgrunnskrá og þeirra einstaklinga sem gera grein fyrir einhvers konar rekstri í skattframtali sínu“ og að líkur séu á því að umtalsverður fjöldi hafi með höndum starfsemi í svo litlum mæli að hún teljist ekki sjálfstæð samkvæmt skilyrðum fyrir reiknuðu endurgjaldi.
Einnig velta þingmenn VG því fram í greinargerðinni „hvort of stórt hlutfall rekstraraðila í skattgrunnskrá sé samsett af lögaðilum sem hafa lítinn sem engan rekstrartilgang“ og vísa til þess að gögn um álagningu tekjuskatts og tryggingagjalds á árunum 2015-2020 sem birtast í rannsókn Sigurðar Jenssonar gefi til kynna að svo sé. Gögn rannsóknar Sigurðar sýndu að álagðir skattar á lögaðila á rannsóknartímabilinu fóru lækkandi og að tekjuskattur rekstraraðila stóð nánast í stað í nafnverðskrónum á sama tíma og fjöldi rekstrarframtala jókst um 20 prósent.
„Þá hafa skatttekjur á hvern lögaðila dregist saman og greiðir 71% rekstraraðila engan tekjuskatt, um 55% rekstraraðila greiða engin laun og um 42% greiða hvorki tekjuskatt né tryggingagjald. Þessi félög kallar höfundur „óvirk“ en bendir jafnframt á að það segi ekki til um fjárhagsleg umsvif þeirra. Ekki er hægt að nefna reiknað endurgjald og sjálfstæða starfsemi án þess að víkja sérstaklega að þessum þætti,“ segir í greinargerð þingmanna Vinstri grænna.
Í greinargerð þingmannana er því svo bætt við að ljóst sé að lögaðilar sem stunda ekki hefðbundinn atvinnurekstur geti „átt miklar eignir og haft umtalsverð fjárhagsleg umsvif þótt engum skatti sé skilað“ og slík tilvik eigi „til að mynda við þegar einstaklingur sinnir fjárfestingum á vegum lögaðila í sinni eigu, þar sem ekki er augljós rekstrarlegur tilgangur annar en sá að hafa tekjur af eignum í eigu félagsins, og má því líta svo á að umsjón manns með þeim lögaðila sé í eigin þágu.“
Þingmennirnir nefna að þetta geti átt við um umsjón og umsýslu á vegum lögaðila vegna eignarhalds á fasteignum, eignarhluta í öðrum félögum og um sölu og kaup hlutabréfa.
„Rétt er að víkja sérstaklega að sölu hlutabréfa en söluhagnaður vegna þeirra telst frádráttarbær samkvæmt 9. tölul. a 31. gr. laga um tekjuskatt. Telja má að þau tilvik þar sem söluhagnaður hlutabréfa er innleystur inni í félagi geti leitt til freistnivanda sem felst í því að eigendur lögaðila nýta óskattlagða fjármuni til kaupa á eignum sem almennt teljast persónubundnar, t.d. fasteignum eins og einbýlishúsum eða sumarhúsum, jörðum og þess háttar, í stað þess að greiða sér út arð,“ segir í greinargerð þingmanna VG.
Þingmennirnir segja að það sé þeirra afstaða að lögaðili „taki hvorki ákvarðanir né hafi umsjón eða umsýslu með þeim atriðum sem nefnd eru í greinargerð án aðkomu hluthafa.“
„Hafi lögaðili engan skýran rekstrartilgang má telja ljóst að sá einstaklingur sem hefur umsjón og umsýslu með þeim lögaðila geri svo í eigin þágu. Slíkt útheimtir vinnu af hálfu viðkomandi og ber honum að reikna sér endurgjald fyrir þá vinnu sem hann innir af hendi í þágu lögaðilans. Tilgangur þessarar lagabreytingar yrði því að tryggja að maður sem í raun hefur tekjur af umsýslu og utanumhaldi með lögaðila sem heldur utan um eignir, hlutabréf og önnur félög, og stundar þar með ekki eiginlegan atvinnurekstur, greiði skatta vegna þeirrar vinnu á sambærilegum forsendum og ef hann væri ráðinn til hins sama hjá þriðja aðila á grundvelli reglna um reiknað endurgjald,“ segir í greinargerð þingmannana.