Í gær, 12. ágúst, birtist forsetabréf um þingrof og almennar kosningar í Stjórnartíðindum. Þar segir meðal annars að samkvæmt tillögu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi fyrr í vikunni, þá sé búið að ákveða að rjúfa þing 25. september og að kosningar til Alþingis fari fram þann sama dag.
Í tilkynningu á vef Alþingis vegna þessa segir að í þingrofi felist heimild handhafa framkvæmdarvaldsins, Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands að tillögu forsætisráðherra, til að stytta kjörtímabil Alþingis, en Alþingi er kjörið til fjögurra ára í senn. Síðast fóru kosningar fram 28. október 2017. Því mun vanta rúman mánuð upp á að Alþingi hafi setið í heil fjögur ár.
Nýtt Alþingi á að koma saman eigi síðar en tíu vikum eftir kjördag. Takist að mynda ríkisstjórn hratt eftir kosningar má ætla að það verði kallað saman mun fyrr, líkt og gerðist 2017, en það getur líka dregist umtalsvert ef stjórnarmyndunarviðræður verða erfiðar og flóknar, líkt og þær voru 2016.