Þingvallanefnd hefur falið þjóðgarðsverði að leita eftir samvinnu við Flugmálastjórn til að reyna að takmarka svokallað „ónæðisflug“ í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þá vill nefndin að „dróna-flug“ verði bannað í þjóðgarðinum. Þetta kemur fram í skriflegu svari Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem jafnframt er formaður Þingvallanefndar, við fyrirspurn Kjarnans.
Þyrluflug veldur titringi
Vilborg Halldórsdóttir, leikkona og leiðsögumaður, gagnrýndi harðlega óheft þyrluflug með ferðamenn við helstu ferðamannastaði landsins í stöðuuppfærslu á Facebook á dögunum og Kjarninn sagði frá.
Í áðurnefndri stöðuuppfærslu skrifaði Vilborg: „Í dag var ég uppi á Gullfossi í fegursta vetrarveðri sem hægt er að upplifa, skafheiður himinn og skyggnið algert…. þar mátti ég sætta mig við það, að þyrla sveimaði yfir mér í óratíma með tilheyrandi hávaðamengun. Kannski með 2-3 farþega innanborðs. Ætli þeim 250 manns sem voru að njóta fossa og náttúru hafi verið skemmt!? Ætli þeir séu komnir útí hina íslensku náttúru til að sitja undir slíku!?“
Þá velti Vilborg fyrir sér hversu lengi Ísland verði spennandi áfangastaður fyrir áhugasama ferðamenn með þessu framhaldi. „Þessi hávaðamengun er eins og sígarettumengun…. fjöldi líður fyrir fáa. Eiga hundruðir að líða fyrir leti og ríkidæmi fárra og sjálfvaldra? Hvenær ætlum við að fara að setja reglur um t.d. þyrluflug yfir þjóðgörðum?“
Engar flugtakmarkanir í gildi í þjóðgörðunum
Engar sérstakar takmarkanir eru í gildi er varða flug loftfara í þjóðgörðum á Íslandi, en útsýnisflug með ferðamenn hefur aukist gríðarlega hérlendis á síðustu misserum samhliða sprengingu í komum erlendra ferðamanna hingað til lands.
Samkvæmt reglugerð um flugreglur er óheimilt að fljúga yfir þéttbýlum hlutum borga, bæja, þorpa eða útisamkomum í minni hæð en 1000 fetum, eða 300 metrum. Þá vaknar óneitanlega upp sú spurning hvort ekki skuli skilgreina jafn þéttsetinn ferðamannastað og til að mynda Gullfoss sem útisamkomu.
Annars staðar, það er utan þéttbýlis eða mannamóta, er bannað að fljúga loftfari í minni hæð en 500 fetum, eða 150 metrum. Athygli skal vakin á því að í ofangreindum tilfellum er um að ræða flughæð yfir landi, en ekki sjávarmáli. Samkvæmt eftirgrennslan Kjarnans er venjan sú að hæðarmælar séu stilltir á hæð yfir sjávarmáli, sem viðkomandi flugmaður þarf þá ýmist að bæta 1000 eða 500 fetum við til að fara að reglum.
Fleiri kvarta undan „ónæðisflugi“
Þingvallanefnd hefur fjallað um þyrluflug og rætt hvort ástæða sé til að setja skýrar reglur um útsýnisflug í þjóðgarðinum. Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á þingvöllum, segir í samtali við Kjarnann að færst hafi í vöxt að gestir þjóðgarðsins kvarti undan ónæði vegna þyrlna og flugvéla. Hann segir að víða erlendis séu í gildi takmarkanir um útsýnisflug í þjóðgörðum, á friðlýstum svæðum eða á vinsælum ferðamannastöðum, eða það háð sérstöku leyfi.
Í áðurnefndu svari Sigrúnar Magnúsdóttur, formanns Þingvallanefndar, við fyrirspurn Kjarnans, segir að stjórn þjóðgarðsins geti ekki bannað flug á Þingvöllum upp á sitt einsdæmi, en nú sé leitað leiða til að takmarka þar „ónæðisflug.“ Þá vilji nefndin að flug dróna verði bannað í þjóðgarðinum. „Þyrluflug er vaxandi starfsemi hér á landi og því mjög eðlilegt að sest sé niður og þau mál rædd eins og allt annað í hinum ört vaxandi atvinnuvegi ferðamennskunni. Það eru oftast kostir og gallar á flestum málum. Málið er að takmarka gallana og leyfa kostunum að njóta sín. Við á Þingvöllum viljum vinna með fólki, líka þyrluflugmönnum. Þetta er þjóðgarður fyrir alla.“