Undirskriftasöfnuninni þjóðareign.is verður lokað á miðnætti á fimmtudaginn og í kjölfarið verða undirskriftirnar afhentar forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá aðstandendum söfnunarinnar.
Aðstandendur vefsíðunnar eru Agnar K. Þorsteinsson, Bolli Héðinsson, Guðrún Pétursdóttir, Henný Hinz, Jón Sigurðsson, Jón Steinsson og Þorkell Helgason. Á vefsíðunni skora þau sem skrifa nafn sitt á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu væntanlegu makrílfrumvarpi sjávarútvegsráðherra og hverjum þeim lögum sem þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til meira en eins árs.
Nú hafa yfir 51 þúsund manns skrifað undir, sem samsvarar um 21 prósenti af kjósendum á kjörskrá.
„Undirskriftasöfnuninni var hrundið af stað í kjölfar þess að lagt hafði verið fram stjórnarfrumvarp um úthlutun heimilda til makrílveiða til sex ára með sjálfvirkri framlengingu. Nú liggur fyrir að þetta frumvarp verður ekki afgreitt fyrir þinglok en boðað hefur verið að það verði tekið upp aftur á haustþingi,“ segir í yfirlýsingunni. Því hafi verið ákveðið að ljúka söfnun undirskrifta.
Aðstandendurnir árétta þó að undirskriftasöfnunin hafi ekki beinst gegn makrílfrumvarpinu sérstaklega heldur taki hún til allra frumvarpa þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað á meðan ekki hafi verið sett ótvíræð ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á auðlindum. Áskorunin haldi því gildi sínu þar til það verði.