Heildarútflutningur á þjónustu á fyrsta ársfjórðungi 2015 var, samkvæmt bráðabirgðatölum, 101,2 milljarðar króna en innflutningur á þjónustu 81,8 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd var því jákvæður um 19,5 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi en var jákvæður um 15,6 milljarða á sama tíma árið 2014 á gengi hvors árs. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands í dag.
Útflutt samgöngu- og flutningaþjónusta nam 36,1 milljarði og var stærsti liðurinn í útfluttri þjónustu á ársfjórðungnum, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands. Innflutt samgöngu- og flutningaþjónusta nam 13,3 milljörðum. Afgangur nam því 22,8 milljörðum.
Innflutt ferðaþjónusta nam 24,7 milljörðum og var stærsti liðurinn í innfluttri þjónustu á ársfjórðungnum. Útflutt ferðaþjónusta var 31,3 milljarðar og því nam afgangur hennar 6,6 milljörðum. Afgangur á sama ársfjórðungi árið 2014 nam 2,4 milljörðum á gengi hvors árs.
Önnur innflutt viðskiptaþjónusta nam 21,8 milljörðum og útflutningur hennar 8,6 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi. Líkt og fyrri ár var halli mestur af þessum þjónustulið eða 13,3 milljarðar, að því er segir í frétt Hagstofu Íslands.