Reykjavíkurborg og Ríkisútvarpið hafa gert leigusamning til fimmtán ára um að borgin leigi efstu hæðir Útvarpshússins við Efstaleiti.
Þetta kemur fram á vef Rúv. Þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða verður í húsinu frá og með 1. maí næstkomandi. Borgin greiðir tæplega sextíu milljónir á ári fyrir leiguna.
Fleiri samþykktir sem snúa að lóð og húsnæði Rúv voru afgreiddar úr borgarráði í morgun. Forsögn að samkeppnislýsingu um deiliskipulag Efstaleitis var samþykkt, en á reitnum á að rísa fjölbreytt byggð með blönduðum búsetuúrræðum.
Haft er eftir Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra að þetta hjálpi að sjálfsögðu til við að bæta rekstur félagsins. „Þó er rétt að geta þess að þetta eitt og sér dugar ekki til að koma rekstri félagsins í jafnvægi því enn stöndum við frammi fyrir því að þjónustutekjur nú og eftir frekari lækkun útvarpsgjalds um næstu áramót duga ekki til að standa undir starfsemi félagsins.“