Þóra Arnórsdóttir, starfandi ritstjóri Kastljóss, gagnrýnir RÚV fyrir að sýna ekki alla leiki í 16 liða úrslitum heimsmeistarakeppni kvenna í knattspyrnu á aukarás sinni, RÚV2.
Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Þóra að hún sé ekki að biðja um að hver einasti leikur í mótinu sé sýndur, en spyr hvort það sé ekki lágmark að sýna útsláttarleikina. "Ég veit ekki til þess að það hafi verið vesen á HM karla hingað til. Það eru þúsundir og aftur þúsundir stelpna að æfa fótbolta á Íslandi, þær æfa alveg jafn mikið og strákarnir og þurfa alveg jafn mikið á fyrirmyndum að halda og þeir. Það er ömurlegt að fá þau skilaboð að kvennamótið sé bara svo miklu ómerkilegra að það sé nóg að sýna einn og einn leik þegar tímasetningin er heppileg." Hún tengir síðan Einar Örn Jónsson, yfirmann íþróttardeildar RÚV, við færsluna.
RÚV2 er aukarás RÚV og viðburðasjónvarpsstöð. Á henni er ekki boðið upp á samfellda dagskrá heldur er stöðin nýtt sem viðbót við aðalrásina RÚV. Þar er einkum boðið upp á beinar útsendingar og upptökur frá markverðum menningar- og íþróttaviðburðum, innlendum sem erlendum.