Þóra Arnórsdóttir, frétta- og dagskrárgerðarkona, hefur verið ráðin ritstjóri Kastljóss. Þóra hefur gegnt starfi aðstoðarritstjóra fréttaskýringarþáttarins og verið ritstjóri hans í fjarveru Sigmars Guðmundssonar. Sigmar mun fara í önnur störf hjá RÚV, að því er fram kemur í frétt á vef RÚV. Þátturinn er nú í sumarfríi en fer aftur í loftið þann 24. ágúst næstkomandi.
Spurð hvort þátturinn muni taka einhverjum breytingum undir stjórn nýs ritstjóra, segir Þóra að það verði nú mótað. Vissulega breytist eitthvað þegar Sigmar hættir, en hann hefur verið í Kastljósi í 13 ár. „Ég mun áfram leita til hans,“ segir Þóra í samtali við Kjarnann. Hún segir Kastljós vera mikilvægan hluta af dagskrá RÚV. Hún býst ekki við að þátturinn taki kollsteypu þótt ávallt breytist eitthvað þegar nýr ritstjóri taki við. „Þátturinn verður enn öflugri og það verða fleiri sem munu koma að honum. Þetta skýrist allt í ágúst,“ segir hún.