Þórður Rafn Sigurðsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, greiðir mestan skatt Íslendinga, samkvæmt yfirliti frá ríkisskattstjóra um álagningu einstaklinga 2015. Hann greiðir tæplegra 672 milljónir króna. Skattakóngurinn í fyrra, Jón A. Ágústsson, greiddi þá tæplega 412 milljónir króna.
Þorsteinn Sigurðsson greiðir næst hæstu gjöldin í ár, tæplega 305 milljónir króna.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er þriðji á listanum yfir þá sem greiða hæst opinber gjöld. Hann greiðir rúmlega 277 milljónir króna.
Gunnar Torfason greiðir tæpar 181 milljón króna í skatta.
Álagningaskrár liggja nú frammi á starfsstöðvum embættis ríkisskattstjóra um allt land, lögum samkvæmt, næstu tvær vikurnar. Kærufrestur rennur út 24. ágúst næstkomandi.