Þórey Vilhjálmsdóttir, fyrrum aðstoðarkona Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum innanríkisráðherra, hefur verið ráðin til Capacent sem ráðgjafi í stefnumótun og stjórnun. Um þetta tilkynnir fyrirtækið í dag.
Fram kemur að Þórey er með Bs. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á alþjóðaviðskipti, MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og CEIBS viðskiptaháskóla í Sjanghæ í Kína.
„Þórey býr yfir 20 ára reynslu af fyrirtækjarekstri, stjórnun, verkefnastjórnun og stefnumótun. Hún hefur stofnað og rekið fyrirtæki bæði á Íslandi og í Rússlandi auk þess að leiða ýmis stór verkefni og viðburði. Þórey hefur einnig reynslu úr stjórnsýslu og stjórnmálum sem fyrrveraendi aðstoðarmaður innanríkisráðherra og framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Hún hefur tekið þátt í margháttuðum félagsstörfum og sat m.a. í stjórn UNwomen, íslenskri landsnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna og í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningu.
Þórey gegndi síðast starfi aðstoðarmanns innanríkisráðherra, allt þar til Hanna Birna Kristjánsdóttir lét af störfum sem ráðherra vegna lekamálsins í nóvember síðastliðnum.
„Capacent hefur lengi verið leiðandi ráðgjafarfyrirtæki og með ráðningu Þóreyjar erum við að styrkja reynslumikið teymi okkar enn frekar og efla þannig þjónustu við viðskiptavini. Þórey mun leggja áherslu á nýjar leiðir í stefnumótun þar sem skapandi hugsun, þverfagleg teymi og aðferðir hönnunar eru notaðar en sú aðferðafræði er í auknum mæli nýtt af leiðandi fyrirtækjum á heimsvísu,“ segir Ingvi Þór Elliðason, framkvæmdastjóri Capacent, í tilkynningunni. Þar segir að Þórey muni einnig sinna ráðgjöf er varðar samfélagsábyrgð, markaðsmál og vöruþróun.