Þörfin á svokölluðum afkomubætandi aðgerðum ríkissjóðs á árunum 2023-2025, sem fela annað hvort í sér skattahækkanir eða niðurskurð, er nú talin vera helmingi minni en hún var áður metin á, í ljósi þess að afkomuhorfur ríkissjóðs hafa batnað töluvert. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við Kjarnann.
Bjarni kynnti frumvarp sitt til fjárlaga á blaðamannafundi fyrr í dag, en þar sagði hann að kröftug viðspyrna og bætt staða í hagkerfinu valdi því að útlit sé fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 66 milljörðum króna hærri á næsta ári en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun síðastliðið vor. Bætta afkoman skýrist mest af auknum skatttekjum og þá sér í lagi auknum tekjuskatti lögaðila.
Íslandsbanki seldur og minni niðurgreiðslur til rafbíla
Til viðbótar við þetta kynnti Bjarni aðrar fyrirhugaðar aðgerðir til að bæta afkomu hins opinbera í náinni framtíð, líkt og áframhaldandi sala Íslandsbanka og breytt fyrirkomulag varðandi eldsneytisnotkun og ökutækjakaup.
Kjarninn hefur fjallað um síðarnefndu áformin, en þau fela í sér að dregið verði úr ívilnunum fyrir rafbíla og tengiltvinnbíla. Samkvæmt Bjarna verður nauðsynlegt að ráðast í slíkar aðgerðir, þar sem eldsneytisgjöld, sem er mikilvægur tekjustofn hins opinbera, séu „að hverfa smám saman“ samhliða orkuskiptum. Bjarni lagði þó áherslu á að þessar aðgerðir ættu ekki að ógna orkuskiptunum.
Búist við aðhaldsaðgerðum eftir tvö ár
Kjarninn hefur einnig fjallað um svokallaðar afkomubætandi ráðstafanir, sem hið opinbera gerir ráð fyrir að þurfa að ráðast í á tímabilinu 2023-2025 samkvæmt fjármálaáætlun þessa árs og næstu fjögurra ára sem var kynnt í vor. Þar var gert ráð fyrir að þessar ráðstafanir, sem fela annað hvort í sér skattahækkun eða niðurskurð í útgjöldum, muni nema 34 milljörðum á ári, en geti numið allt að 50 milljörðum króna á ári ef efnahagshorfur versna.
Nýjar horfur fjármálaráðuneytisins búast hins vegar við að skuldaþróun hins opinbera verði mun hagstæðari en fjármálaáætlunin gerði ráð fyrir, til að mynda er nú talið að skuldir muni nema um 34 prósentum af landsframleiðslu á næsta ári, í stað 42 prósenta.
Samkvæmt Bjarna mun bætt afkoma ríkissjóðs, auk áætlananna um að selja Íslandsbanka og minnka niðurgreiðslur til rafbílaeigendur, leiða til þess að umfang fyrirhugaðra aðhaldsaðgerða verði innan við helmingur af því sem fjármálaáætlunin gerði ráð fyrir. Nýútgefin fjármálsastefna sýni ekki nákvæma sundurliðun á því hvernig þessum ráðstöfunum yrði háttað, en framreikningur ráðuneytisins á afkomu hins opinbera sýnir að mun minna lifi eftir af þörfinni fyrir slíkum aðgerðum.