Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að breytast og að hann þurfi að opna sig meira, til dæmis gagnvart umræðu um Evrópumál. Flokkurinn þurfi líka að standa fyrir meira frelsi í landbúnaðarmálum og beita sér fyrir jöfnun atkvæða, en vægi atkvæða er í dag mjög ólíkt eftir kjördæmum. "Ég held að menn séu hræddir við það vegna þess að þá missa þeir völd en þá verður bara svo að vera, rétt skal vera rétt," segir Þorgerður um atkvæðamisvægið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í föstudagsviðtali Fréttablaðsins í dag.
Þar segir hún einnig að hennar bakland hristi höfuðið þegar hún tali fallega um Sjálfstæðisflokkinn. "Ég trúi því að menn vilji enn þá hafa hann sem ríkjandi afl. Ef það gerist hins vegar ekki, ég ætla ekki að draga dul á það, þá er greinilega flötur fyrir sterku miðjuafli, sem er framsýnt og frjálslynt. Sem þarf ekki að taka tillit til einhverra hagsmuna úti um allt, heldur verður það líka frjálst og óháð. Hvort sem það er Evrópusinnað eða ekki.“
Þorgerður hefur ítrekað verið orðuð við forystuhlutverk í hinu nýja stjórnmálaafli Viðreisn, sem er nokkurskonar klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum. Hún segir að það sé ekki endilega stjórnmálaaflið sem hún sé að tala um. Það gæti líka verið hópur af frjálslyndum hægrisinnuðum konum.
Þyrfti mikið til að fá hana aftur í stjórnmál
Hún segir þó að það þyrfti eitthvað verulega mikið til að fá hana aftur inn í stjórnmál, en hún hætti í þeim árið 2013 vegna skuldamála eiginmanns hennar, Kristjáns Arasonar. "Ég er í Sjálfstæðisflokknum, búin að vera þar og hef ekki kosið annað. Það þyrfti eitthvað mikið að gerast ef ég ætti ekki að gera það. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að það mætti ýmislegt betur fara í Sjálfstæðisflokknum, ég held til dæmis að flokkurinn minn verði að opna sig aðeins meira. Hann verði að hugsa um það sem hann hefur staðið fyrir í gegnum tíðina, að vera frjálst framsýnt umbótaafl." Þorgerður viðurkennir hins vegar að í mörgum málum hefði hún viljað sjá flokkinn sinn "stærri og sýna meiri reisn."
Hún telur að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi ekki að hafa áhyggjur af klofningsframboði ef flokkurinn tekur á þeim málum sem fólk sé að kalla eftir. Hún nefnir aukið frelsi í landbúnaði og jöfnun atkvæðavægis sem dæmi um slík mál. Auk þess þurfi Sjálfstæðiflokkurinn að læra af þeim stjórnmálaöflum nútímans sem séu að ná til fólks. "Ég held það sé rangt ef menn ætla að horfa á Pírata og tala þá niður. Ég held það sé margt mikilvægt sem við eigum að læra af því sem Píratar eru að setja fram, margt sem maður er ósammála, en margt áhugavert og eftirtektarvert. Og framkoma þeirra margra mjög til eftirbreytni. Eins og Helgi Hrafn í þinginu og Halldór Auðar í borginni. Að mörgu leyti held ég að staða Sjálfstæðisflokksins í borginni, sem er knöpp og erfið, markist af því að menn lærðu ekki nægilega mikið af því hvernig Besti flokkurinn kom fram. Það var meira kapp lagt á að tala Besta flokkinn niður, tala niður Jón Gnarr frekar en að draga fram það jákvæða".
Maður á ekki að vera í pólitík til að fá endalaust uppklapp
Þorgerður segir að það megi ekki gerast að ungt fólk missi áhugan á stjórnmálum. "Af hverju er pólitíkin eins og hún er í dag? Af því að hún er ekki búin að breytast nægilega mikið. Við getum nefnt mál sem við sem teljumst til eldri kynslóðarinnar hreinlega föttuðum ekki að skiptu máli, sem tengjast Netinu til dæmis. Svo getum við ekki verið með leiðtoga sem senda út skoðanakönnun áður en þeir mynda sér skoðun. Ég þoli það ekki. Maður er ekki í pólitík til að standa á sviðinu og fá endalaust uppklapp.“