Þórir Hákonarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), hefur verið ráðinn í starf íþróttastjóra Þróttar. Þórir hætti sem framkvæmdastjóri KSÍ í febrúar síðastliðnum eftir að hafa gegnt starfinu í átta ár, eða frá vordögum 2007. Þórir tilkynnti um uppsögn sína í pistli á heimasíðu sambandsins sem birtist 19. febrúar. Á meðan að Þórir gengdi starfi framkvæmdastjóra KSÍ upplifðu bæði karla- og kvennalandslið Íslands í knattspyrnu meiri uppgang en þau höfðu nokkru sinni gert áður. Kvennalandsliðið komst á lokamót og karlaliðið komst nálægt því.
Greint er frá ráðningu Þóris sem íþróttastjóra á heimasíðu Þróttar. Þar segir að hann búi "yfir mikilli reynslu af störfum í íþróttahreyfingunni, og því ánægjuefni að fá jafn öflugann mann og Þóri til starfa."
Klara eina konan til að vera framkvæmdastjóri KSÍ
Klara Bjartmarz tók tímabundið við starfi Þóris hjá KSÍ þegar hann hætti. Hún var síðan ráðin framkvæmdastjóri til frambúðar í ágúst síðastliðnum. Starfið var ekki auglýst en einhugur var innan stjórnar sambandsins um að ráða Klöru í það.
Hún hefur hefur starfað fyrir KSÍ síðan í janúar 1994, lengst af við mótamál og landslið kvenna. Þá gegndi hún jafnframt starfi skrifstofustjóra KSÍ um árabil. Að auki hefur Klara starfað fyrir UEFA sem eftirlitsmaður á alþjóðlegum leikjum.
Klara er fyrsta konan sem gegnir stöðu framkvæmdastjóra KSÍ frá því að fyrsti launaði framkvæmdastjórinn var ráðinn árið 1967. Áður en hún tók við starfinu höfðu 17 karlmenn gengt því. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, gerði það lengst allra, frá 1997 til 2007, eða þar til hann var kjörinn formaður sambandsins.