Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram sem stjórnarformaður Byggðastofnunar. Akureyri vikublað greindi frá þessu í dag. Þóroddur hefur þegar tilkynnt ráðherra um þetta sem og öðrum sem sæti eiga í stjórninni. Það eru Einar E. Einarsson, varaformaður, Skagafirði
Valdimar Hafsteinsson, Hveragerði, Ásthildur Sturludóttir, Patreksfirði, Karl Björnsson, Reykjavík, Oddný María Gunnarsdóttir, Blönduósi, og Sigríður Jóhannesdóttir, Þórshöfn.
Þóroddur segir í viðtali við vikublaðið að hann hafi ákveðið að hætta, meðal annars vegna þess að það hafi verið erfitt að samræma starfið fyrir Byggðastofnun meðfram störfum sínum fyrir Háskólann á Akureyri. „Þetta eru mikil ferðalög og rafhlaðan í símanum endist ekki alltaf fram að hádegi. Við höfum alltaf reynt að finna jafnvægi milli fjölskyldu og vinnu en það getur verið misjafnlega auðvelt. Það er minnisstætt að rölta berfættur á suðrænni strönd síðasta sumar með sveitarstjórann á Djúpavogi í símanum og uppgötva allt í einu flissandi halarófu af krakkaormum á eftir sér, blaðrandi stríðnislega „bla, bla, byggðastofnun, bla, bla, bla“ í þykjustusímana sína. Þá slökkti ég á símanum það sem eftir var dagsins,“ segir Þóroddur í samtali við blaðið.
Katrín Júlíusdóttir bað Þórodd um að taka að sér stjórnarformennsku í Byggðastofnun árið 2011, og ákvað hann að slá til. „Reyndar var ég ekki einu sinni málkunnugur Katrínu Júlíusdóttur, ráðherra byggðamála, þegar hún bauð mér starfið, sem er auðvitað athyglisvert. Eins og amma mín hefði sagt; á dauða mínum átti ég von en ekki því að verða formaður stjórnar Byggðastofnunar,“ segir Þóroddur meðal annars í samtali við Akureyri vikublað.