Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir boðaða kæru Birkis Leóssonar endurskoðanda á hendur sér til siðanefndar Háskóla Íslands, í kjölfar ritdeilu þeirra á milli um hvernig eigi að bókfæra virði aflaheimilda, minna á atvik úr sandkassaleikjum bernsku sinnar. „En henni fylgir þó alvarlegur undirtónn því í henni felst tilraun til þöggunar, ekki bara gagnvart mér heldur gagnvart öllum öðrum háskólamönnum sem hafa vilja og áhuga á að tjá sig um sjávarútvegsmál og framkvæmd sjávarútvegsstefnu. Kannski er það tilgangurinn?“
Þetta skrifar Þórólfur í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Ritdeila í nokkrar vikur vegna virði aflaheimilda
Ritdeila þeirra Þórólfs og Birkis hefur snúist um gagnrýni prófessorsins á reikningsskil og endurskoðun ársreiknings sjávarútvegsfélagsins Vísis, sem Birkir hefur haft aðkomu að í sínum störfum. Skeyti hafa gengið þeirra á milli á síðum blaðsins undanfarnar vikur, eða frá því að Þórólfur hóf upp raust sína með grein þann 15. júlí. Þeirri grein svaraði Birkir þann 21. júlí.
Í grein sem birtist í Fréttablaðinu á þriðjudag í síðustu viku svaraði Þórólfur Birki á ný og gagnrýndi starfshætti endurskoðenda Vísis og annarra sjávarútvegsfélaga nokkuð harðlega. Hann sagði meðal annars að þeir örfáu einstaklingar sem bæru ábyrgð á endurskoðun reikninga íslenskra útgerðarfyrirtækja hefðu „skapað þá venju að hunsa skýr fyrirmæli í 5. gr. ársreikningslaganna og hanga eins og hundar á roði á þröngri túlkun á ákvæðum 26. greinar bókhaldslaganna“.
„Ég skal ekki ganga svo langt að fullyrða að um lögbrot sé að ræða, en get ekki séð betur en að gengið sé með skýrum hætti gegn inntaki og grunnhugsun ársreikningslaganna. Það getur ekki talist gott veganesti í endurskoðun!“
Þessi skrif tók Birkir óstinnt upp í grein sem birtist fyrir viku þar sem hann boðaði kæru til siðanefndar Háskóla Íslands vegna skrifa Þórólfs. Hagfræðiprófessorinn svaraði greininni svo í dag og ásakar Birki um þöggun.
Kvörtuðu yfir framgöngu Þórólfs „gagnvart sjávarútveginum“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem aðilar sem tengjast sjávarútvegi hafa kvartað yfir framgöngu Þórólfs á opinberum vettvangi. Kjarninn greindi frá því í nóvember 2019 að þann 17. júní sama ár hafi barst Þórólfi borist skeyti frá erlendu einkafyrirtæki um að taka þátt í úttekt sem það var að vinna um sjálfbærni ýsu og ufsa við Ísland. Ástæðan var sú að annar íslenskur fræðimaður hafði þurft að segja sig frá verkinu vegna annarra verkefna og sá hafði bent á Þórólf.
Þórólfur samdi við erlenda ráðgjafarfyrirtækið tveimur dögum síðar um að taka að sér að vinna að úttektinni.
Þann 1. júlí 2019 barst Þórólfi hins vegar skeyti frá fyrirtækinu þar sem kom fram að ákveðnir hagsmunaaðilar sem greiddu fyrir úttektina hefði umtalsverðan fyrirvara á því að Þórólfur ynni að verkefninu. Hagsmunaaðilarnir, tengdir sjávarútvegi, hefðu einfaldlega ákveðið að Þórólfur ætti ekki að vera hluti af teyminu sem ynni úttektina. Engin efnisleg skýring var gefin á þessu önnur en sú að það væri ekki óalgengt að svona lagað gerðist í verkefnum sem fyrirtækið ynni að á Íslandi, og eftir atvikum í öðrum löndum.
Skelfing að Þórólfur hefði aðgang að gögnum
Þórólfur hafði áður orðið þess áskynja að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hefðu lagst gegn þátttöku hans í verkefnum. Í desember 2009 var skipuð eftirlitsnefnd um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna hrunsins. Tilgangur nefndarinnar meðal annars að gæta þess að sanngirni og jafnræðis yrði gætt þegar verið væri að taka ákvarðanir um endurskipulagningu skulda. Í nefndina voru skipaðir þrír einstaklingar: Þórólfur, María Thjell, þá forstöðumaður lagastofnunar Háskóla Íslands sem var formaður hennar, og Sigríður Ármannsdóttir, löggiltur endurskoðandi.
Í mars 2010 barst Maríu Thjell, formanni nefndarinnar, tölvupóst frá Friðriki J. Arngrímssyni, sem þá var framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), samtök sem í dag heita Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Afrit af póstinum var sent á alla stjórn og varastjórn LÍÚ á þeim tíma.
Í tölvupóstinum sagði Friðrik:
„Blessuð.
Við mig hafði samband útgerðarmaður sem hlýddi á erindi þitt í morgun. Honum til mikillar skelfingar þá lítur svo út að Þórólfur Matthíasson muni hafa aðgang að öllum hans málum í bönkum. Það vill hann ekki að gerist.
Maður á vegum Þórólfs hefur nýverið beðið sjávarútvegsfyrirtæki um gögn um rekstur og efnahag þeirra en verið neitað.
Reynsla útgerðarmanna af meðferð Þórólfs á gögnum og framganga hans gagnvart sjávarútveginum hefur verið með þeim hætti að á störfum hans ríkir fullkomið vantraust.
Mér er kunnugt um að fleiri en þessi útgerðarmaður vilja ekki að Þórólfur komist í trúnaðargögn sem þá varðar í krafti setu sinnar í eftirlitsnefndinni skv. lögum nr. 107/2009 .
Hvað þarf að gera til að verjast því?“
Full alvara
Í svarpósti til Friðriks, sem sendur var daginn eftir, lagði nefndarformaðurinn áherslu á að nefndin væri bundin algjörum trúnaði vegna þeirra gagna sem hún myndi skoða. Þau yrðu einungis skoðuð inni í bönkum og engin afrit tekin úr húsi. „Nefndin má ekki tjá sig um gögnin á neinn hátt eða nota vitneskju sem hún fær á grundvelli þeirra, hvorki beint né óbeint. Það á því ekki að vera nokkur þörf á því að hafa áhyggjur af því að Þórólfur hafi sem nefndarmaður aðgang að gögnum þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og gætu því veri skoðuð af nefndinni.“
Síðar sama dag barst Friðriki svar þar sem honum var greint frá því að niðurstaðan væri sú sama og áður. „Ekki er hægt að taka undir þau sjónarmið sem haldið er fram af hálfu LÍÚ.“
Var að vinna að úttekt
Í upprunalega tölvupóstinum sem Friðrik sendi til formanns eftirlitsnefndarinnar vitnaði hann til þess að maður „á vegum Þórólfs hefur nýverið beðið sjávarútvegsfyrirtæki um gögn um rekstur og efnahag þeirra en verið neitað.“
Samkvæmt tölvupóstum sem Kjarninn hefur undir höndum var þar um að ræða þáverandi aðstoðarmann Þórólfs, en hann var þá að vinna að úttekt á íslenskum sjávarútvegi. Í tölvupósti sem aðstoðarmaðurinn sendi á sjávarútvegsfyrirtæki voru þau beðin um afrit af ársreikningum sínum fyrir árið 2007, til að tölulegar upplýsingar í úttektinni gætu verið sem nákvæmastar. Hægt er að nálgast slíka reikninga hjá ársreikningaskrá, en oftar en ekki eru þeir þar í samandregnu formi og gefa því ekki jafn glögga mynd af stöðu fyrirtækja. Þess vegna voru þau sjálf beðin um að láta rannsakendum í té afrit af þeim.
Í tölvupóstinum kom fram að reikningarnir yrðu „Reikningarnir verða aðeins notaðir til þess að fá heildstæða mynd af sjávarútveginum en ekki til þess að skoða hvert og eitt fyrirtæki nákvæmlega. Við gerð úttektarinnar verður farið með allar þær upplýsingar sem tengjast ykkur sem trúnaðarmál.“