Hafsilfur ehf., félag í eigu Benedikts Sveinssonar, keypti hlut í Íslandsbanka fyrir tæplega 55 milljónir króna í lokuðu útboði sem fram fór fyrir rúmum tveimur vikum síðan. Veittur var rúmlega fjögurra prósenta afsláttur á markaðsvirði í útboðinu. Benedikt er faðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem tók endanlega ákvörðun um söluna á hlutnum í Íslandsbanka, en alls var seldur 22,5 prósent hlutur til 209 fjárfesta.
Eignarhaldsfélagið Steinn ehf., sem er í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja og Helgu S. Guðmundsdóttur, fyrrverandi eiginkonu hans, keypti hlutabréf í lokaða útboðinu fyrir 296,3 milljónir króna. Þorsteinn hefur áður komið að bankarekstri en hann var stjórnarformaður Glitnis banka, fyrirrennara Íslandsbanka, þegar sá banki fór í þrot haustið 2008. Þorsteinn Már er með stöðu sakbornings í umfangsmikilli rannsókn embættis héraðssaksóknara á meintum múturbrotum, skattsvikum og peningaþvætti í tengslum við starfsemi Samherja í Namibíu.
Þar má nefna félögin Frigus II og Frigus fjárfestingar, sem eru að mestu í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona, sem oftast eru kenndir við Bakkavör. Félögin tvö keyptu fyrir samtals 468 milljónir króna í Íslandsbanka, með afslætti.
Bræðurnir voru stærstu einstöku eigendur Kaupþings þega sá banki féll haustið 2008. Lýður hlaut átta mánaða fangelsisdóm í Hæstarétti árið 2014, þar af fimm mánuði skilorðsbundna. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt Lýð til að greiða tveggja milljóna króna sekt.
Þá keypti Skel fjárfestingafélag, sem er skráð á markað, hlut í Íslandsbanka fyrir 450 milljónir króna í útboðinu. Stjórnarformaður Skel, og sá sem leiðir meirihlutaeigandann í félaginu Streng hf., er Jón Ásgeir Jóhannesson. Félög tengd honum voru stærstu eigendur Glitnis banka þegar hann féll í október 2008.
Félagið Lyf og Heilsa hf. keyptu fyrir 225 milljónir króna, en skráður eigandi þess er Jón Hilmar Karlsson. Faðir hans, Karl Wernersson, átti áður félagið en seldi syni sínum það áður en hann varð gjaldþrota. Þrotabú Karls höfðaði í kjölfarið nokkur riftunarmál þar sem talið var að eignum hefði verið komið undan kröfuhöfum, meðal annars með því að eignum Karls væri komið yfir til Jóns Hilmars. Karl var aðaleigandi fjárfestingarfélagsins Milestone fyrir bankahrun, sem var um tíma á meðal stærstu eigenda Glitnis.