Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir gerð kjarasamninga, og það að þær hafi ekki verið fjármagnaðar, hefur dregið mjög úr trausti á að það sé verið að stefna áfram að fjármálastöðugleika á Íslandi. Þetta segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann segist mest hissa á því að ríkisstjórnin hafi ekki útskýrt um leið og aðgerðirnar voru kynntar hvernig eigi að fjármagna þær.
Þorsteinn er gestur í þættinum Vikulokunum á Rás 1, þar sem nýgerðir kjarasamningar voru til umræðu. „Þessir samningar fara út fyrir þau mörk sem markmið um stöðugleika þola,“ sagði Þorsteinn. Nú sé viðbúið að vextir hækki og markmið Seðlabankans hljóti að vera að koma í veg fyrir gengisbreytingar. Það muni veikja samkeppnisstöðu útflutningsgreina og flýta þeirri þróun, sem þegar sé komin af stað, að Ísland sigli aftur inn í viðskiptahalla.
„Síðan mega menn ekki gleyma því að ríkið er að koma inn með alveg gífurlega miklum aðgerðum og þungum, það er sjaldan að ríkið hafi komið inn í kjarasamninga með eins afgerandi hætti,“ sagði Þorsteinn. Hann minnti á að í síðustu viku hafi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagt að mögulega þyrfti að hækka skatta til að mæta verðbólgu og þenslu. „Ég er ekki alltaf sammála forsætisráðherra en ég var sammála honum í því mati.“ Svo hafi hins vegar verið ráðist í gífurlegar skattalækkanir í stað hækkana.
Þá hafi það valdið honum vonbrigðum að ekki hafi verið greint frá því á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í gær hvernig ætti að fjármagna þessar stóru aðgerðir. „Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og dregur mjög úr trausti á að það sé verið að stefna hér áfram að fjármálastöðugleika.“