Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að skipa Þorstein Gunnarsson staðgengil forstjóra Útlendingastofnunar í embætti formanns kærunefndar útlendingamála, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Alls sóttu sjö einstaklingar um embættið en ráðuneytið auglýsti það laust til umsóknar þann 8. maí síðastliðinn.
Kærunefnd útlendingamála er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem hóf störf þann 1. janúar 2015 í kjölfar lagabreytinga sem gerðar voru vorið 2014 á lögum um útlendinga.
Við úrlausn mála hefur kærunefnd útlendingamála sömu valdheimildir og ráðherra sem úrskurðaraðili á æðra stjórnsýslustigi.
Dómsmálaráðherra skipar formann nefndarinnar og varaformann að undangenginni auglýsingu og valferli. Á vefsíðu kærunefndarinnar kemur fram að formaður og varaformaður nefndarinnar, sem hafa starfið að aðalstarfi, skuli uppfylla skilyrði til að starfa sem héraðsdómari.