„Enginn af ótalmörgum forystumönnum stéttarfélaganna virðist hafa áhyggjur af því að verðlag og vextir hækki, skuldabyrði fólks vaxi, að gengi krónunnar muni veikjast og að nýr verðbólguspírall fari af stað,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í pistli á vef SA þar sem farið er yfir stöðuna í kjaramálum.
Þorsteinn segir í pistlinum að kjaraviðræður séu í algjörum hnút, og ekki sé nein lausn í sjónmáli. „Kjaraviðræður á vinnumarkaði eru í hnút. Það á við um viðræður opinberra starfsmanna við ríkið auk viðræðna Samtaka atvinnulífsins við stéttarfélög á almennum markaði. Kröfur flestra stéttarfélaganna eru langt umfram það sem fyrirtækin geta staðið undir án þess að það komi fram í verðhækkunum, uppsögnum, gjaldþrotum eða með því að draga úr vöruþróun og markaðssókn. Afleiðingarnar af því að ganga að kjarakröfunum verða aukin verðbólga, hækkandi vextir, lægra gengi auk þess að atvinna mun minnka. Nákvæmlega hver áhrifin verða á hvern þátt eru ekki þekkt en einni hóflegri sviðsmynd er lýst í grein aðalhagfræðings Seðlabankans sem birt var fyrir nokkrum dögum. Verðbólga myndi vaxa hratt og stýrivextir tvöfaldast en þeir eru nú þegar margfalt hærri en í nágrannalöndum okkar. Ábyrgir aðilar á vinnumarkaði hljóta að taka þetta alvarlega,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn segir að SA muni hvergi kvika frá því, að reyna að viðhalda stöðugleika og koma í veg fyrir að verðbólga hækki. Kröfur verkalýðshreyfingarinnar séu ekki raunhæfar og samrýmist ekki markmiðum um að stöðugt verðlag.
„Samtök atvinnulífsins munu áfram sýna ábyrgð og halda fast við að nýir kjarasamningar samræmist stöðugleika í efnahagslífinu. Reynslan sýnir að miklar launahækkanir skila sjaldnast auknum kaupmætti að ráði. Meira verður gjarnan minna í því samhengi vegna neikvæðra áhrifa slíkra samninga á verðbólgu, vexti og gengi. Kjarasamningar síðasta árs hafa sýnt hvernig lífskjör alls almennings hafa batnað og kaupmáttur aukist með lágri hlutfallshækkun launa, minnkandi verðbólgu og lækkandi vöxtum,“ segir Þorsteinn.