Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingar var í dag kjörin formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem er eina nefndin sem stjórnarandstaðan mun fara með formennsku í á kjörtímabilinu. Birgir Ármannsson var formlega kjörinn forseti Alþingis og stýrði kosningu í fastanefndir þingsins og hófst svo handa við að úthluta þingmönnum sætum.
Auk Birgis voru í forsætisnefnd kjörnir sex varaforsetar þings. Oddný G. Harðardóttir (S) er fyrsti varaforseti, Líneik Anna Sævarsdóttir (B) annar varaforseti, Inga Sæland (F) þriðji varaforseti, Diljá Mist Einarsdóttir (D) fjórði varaforseti, Björn Leví Gunnarsson (P) er fimmti og Jódís Skúladóttir (V) er sjötti varaforseti þingsins. Einnig eiga áheyrnarfulltrúasæti í forsætisnefnd þau Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (C) og Bergþór Ólason (M).
Bjarkey formaður fjárlaganefndar
Vinstri græn halda á formennsku tveggja fastanefndanefnda, fjárlaganefndar og utanríkismálanefndar. Koma fulltrúar þeirra í formennskuhlutverkum ekki á óvart.
Flokkurinn sendi nefnilega óvart frá sér í tilkynningu á fjölmiðla á mánudag, sem síðar var dregin til baka, þar sem fram kom að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir yrði formaður fjárlaganefndar og Bjarni Jónsson myndi veita utanríkismálanefnd formennsku. Það stóð heima.
Sjálfstæðisflokkurinn fer með formennsku í þremur fastanefndum, auk forsætisnefndar. Guðrún Hafsteinsdóttir verður formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Vilhjálmur Árnason verður formaður í umhverfis- og samgöngunefnd og Bryndís Haraldsdóttir verður formaður í allsherjar- og menntamálanefnd.
Framsóknarflokkurinn fer svo með formennsku í tveimur nefndum. Stefán Vagn Stefánsson verður formaður atvinnuveganefndar og Líneik Anna Sævarsdóttir verður formaður velferðarnefndar.
Björn Leví fékk sama sæti og Sigmundur Davíð
Það gekk ekki alveg vandræðalaust að úthluta sætum til þingmanna. Þingforseti dregur númer þingsæta fyrir hvern og einn þingmann upp úr kassa, en þegar röðin kom að því að fnna sæti fyrir Björn Leví Gunnarsson þingmann Pírata kom talan 10 upp.
Það sæti var hins vegar komið í hendur Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins og vöktu þingmenn í salnum athygli á því að einhver ruglingur væri að eiga sér stað.
Þar sem ljóst var að það hefði orðið ruglingur á kúlum upp úr kassanum frestaði Birgir fundi þingsins kl. 13:35, um fimm mínútur, til að ráða úr málinu.
Þingfundur hófst hins vegar ekki fyrr en rúmum tuttugu mínútum síðar – og þá var ákveðið að byrja upp á nýtt við úthlutun þingsætanna.
Ráðherrar áberandi í eldhúsdagsumræðum – Bergþór talar tvisvar
Í kvöld flytur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrstu stefnuræðu sína á nýju þingi og í kjölfarið verða umræður um hana, sem skiptast í þrjár umferðir. Hver þingflokkur hefur 6 mínútur í fyrstu umferð, 5 mínútur í annarri umferð og 4 mínútur í þriðju umferð en forsætisráðherra hefur 12 mínútur til framsögu.
Ræðumenn fyrir VG verða Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Fyrir Samfylkinguna tala Logi Einarsson, Kristrún Frostadóttir og Oddný Harðardóttir. Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson tala svo fyrir Flokk fólksins.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson halda ræður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Björn Leví Gunnarsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og Andrés Ingi Jónsson tala fyrir Pírata.
Fyrir Framsóknarflokk tala þau Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Guðbrandur Einarsson og Sigmar Guðmundsson halda uppi merkjum fyrir Viðreisn og fyrir tveggja manna þingflokk Miðflokksins mun Bergþór Ólason tala tvisvar og Anna Kolbrún Árnadóttir einu sinni, en hún situr á þingi sem varamaður Sigmundar Davíðs nú í upphafi þings.