Þórunn Guðmundsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur verið kjörin formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands. Þórunn var kosin í bankaráðið af Alþingi í mars síðastliðnum í stað Ólafar Nordal sem hætti í ráðinu er hún tók við embætti innanríkisráðherra.
Á fundi ráðsins í gær var Þórunn svo kosin formaður. Varformaður bankaráðsins er Jón Helgi Egilsson.
Þórunn er einn eigenda lögmannsstofunnar LEX og hefur um 30 ára starfsreynslu af lögmennsku, en hún hefur starfað samfellt hjá lögmannsstofunni frá árinu 1983.
Auk þess að sinna lögmannsstörfum hefur Þórunn setið í ýmsum nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera og einkaaðila. Þá hefur Þórunn sinnt kennslu og prófdómarastörfum við lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Jafnframt hefur Þórunn gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Lögmannafélag Íslands og var meðal annars formaður félagsins á árunum 1995 til 1997.