Verjendur ákærðu í máli embættis sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi starfsmönnum landsbankans, Sigurjóni Árnasyni, fv. forstjóra, Ívar Guðjónssyni, fyrrverandi forstöðumanni eigin viðskipta, og Júlíusi Heiðarssyni og Sindra Sveinssyni, starfsmönnum eigin viðskipta, þráspurðu Magnús Kristinn Ásgeirsson, lögfræðing Kauphallar Íslands, út í bréfaskrif milli Kauphallar Íslands og Fjármálaeftirlitsins í morgun, ásamt fleiri atriðum. Spurningarnar snéru ekki síst að því hvernig eftirliti með viðskiptum í kauphöllinni væri háttað, hvernig viðskipti færu fram og hver væri meiningin að baki texta sem finna mátti í bréfum milli Kauphallar Íslands og Fjármálaeftirlitsins, þar sem gefið var í skyn að um meinta markaðsmisnotkun hefði verið að ræða.
Kom fram í máli Helga Sigurðssonar hrl., lögmanns Júlíusar, að þetta væri lykilvitni í málinu, og því þyrfti hann að spyrja hann töluvert út í málið. Samkvæmt upphaflegri áætlun var áformað að hann þyrfti að vera 10 mínútur í vitnastúku en raunin varð tæplega 90.
Allir eru þeir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008 og eru þeir sakaðir um að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt „fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild,“ eins og það er orðað í ákæru.
Grunsemdir í Kauphöllinni
Á umræddu tímabili keyptu eigin fjárfestingar 2.325.395.153 hluti af þeim 4.801.255.966 hlutum í Landsbankanum sem viðskipti voru með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, eða 48,4% af heildarveltunni. Í ljósi þess hvernig ákæran er orðuð, og að hverju hún beinist, skiptir skipulag viðskipta og eftirlits í Kauphöll Íslands miklu máli fyrir málið.
Lögmenn Júlíusar og Ívars, þeir Helgi Sigurðsson hrl. og Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl., spurðu Magnús Kristin út í það hvort það hefði verið eitthvað óeðlilegt við það hvernig viðskipti Landsbankans með eigin bréf hefðu verið og hvort eftirlitskerfið í Kauphöllinni hér á landi væri með eitthvað öðrum hætti en á öðrum alþjóðlegum mörkuðum. Magnús Kristinn sagði eftirlitið vera í samræmi við það sem þekktist annars staðar og að kerfið væri það sama og kauphallir á Norðurlöndunum notuðu.
Í aðdraganda hrunsins sagði Magnús að kauphöllin hefði orðið vör við „mjög ákveðin“ viðskipti á kauphliðinni frá eigin viðskiptum Landsbankans, og bönkunum almennt, og var sérstaklega nefnd dagsetningin 3. október 2008 í því sambandi. Í lok dags hækkaði gengi bréfa Landsbankans um 4,2 prósent. Magnús átti í kjölfarið á þessu samskipti við ákærða Júlíus, og spurði hvort þarna væru eigin viðskipti að beita sér á markaðnum. Júlíus játti því og sagði kauptækifæri vera á markaðnum.
„Óeðlileg“?
Í vitnisburði sínum sagði Magnús að þetta hefði verið „óeðlileg“ hegðun miðað við það sem gengur og gerist á markaðnum. Þá voru bréfaskipti milli Kauphallarinnar og FME einnig til umræðu þegar Magnús Kristinn var í vitnastúku. Var meðal annars spurt út í meiningar í texta þar sem fjallað var um mögulega markaðsmisnotkun á markaðnum. Sagðist Magnús Kristinn ekkert geta fullyrt um hvort markaðsmisnotkun ætti sér stað eða ekki, það væri ekki hans að dæma um það. Hins vegar þyrfti að horfa til „allra þátta“ þegar meint markaðsmisnotkun væri annars vegar, þar á meðal væri fjármögnunin að baki viðskiptunum, t.d. hvort bankarnir sjálfir hafi verið að fjármagna kaup og stæðu að baki viðskiptunum þannig, með bréfin ein að veði. Það væri eitthvað sem Kauphöllin hefði ekki upplýsingar um, en eftir á að hyggja hefði það mögulega verið stórt vandamál á markaðnum.
Markaðsmisnotkun?
Ákærðu neita alfarið sök í málinu og hefur Sigurjón Árnason raunar sagt að það séu mikil „vonbrigði“ hvernig málið sé sett fram. Fyrst og fremst vegna þess í að því séu „öllu snúið á haus“. Ekket óeðlilegt hafi átt sér stað, og enginn hafi verið viljandi að brjóta gegn lögum, að því er fram kom í umfjöllun mbl.is um vitnisburð hans. Sigurjón var sýknaður í Ímon-málinu svokallaða 5. júní 2014, en umfang þess máls var þó ekki nándar nærri eins og mikið og það sem nú er í gangi. Lögmaður Sigurjóns er Sigurður G. Guðjónsson hrl.
Vitnaleiðslur hófust formlega í dag, en um 50 manns eru á vitnalista ákæruvaldsins. Þar á meðal eru Björgólfsfeðgar, Björgólfur Guðmundsson og sonur hans Björgólfur Thor, sem voru stærstu eigendur bankans fyrir hrun hans í gegnum félag þeirra Samson.