Stærstu bankar Bandaríkjanna, sem greiða til innstæðutryggingasjóðs, högnuðust um 152,7 milljarða Bandaríkjadala í fyrra, eða sem nemur tæplega 20 þúsund milljörðum króna. Samkvæmt rekstrarafkomutölum sem innstæðutryggingasjóður Seðlabanka Bandaríkjanna (FDIC) gerði opinberar í dag, eru afkomutölurnar þær næst bestu í sögunni.
Aðeins á árinu 2013 hefur veirð meiri hagnaður hjá bandarískum bönkum, en þá nam hagnaðurinn 154,7 milljörðum Bandaríkjadala. Á síðasta ársfjórðungi síðasta árs nam hagnaðurinn 36,8 milljörðum Bandaríkjadala samkvæmt tölum FDIC.
Þessar tölur komu mörgum á óvart, en himinháar sektir margra stærstu banka Bandaríkjanna, vegna lögbrota í tengslum við húsnæðislánmarkaðinn á árunum 2006 til 2009, voru gjaldfærðar í rekstri bankanna í fyrra, og hefði hagnaðurinn orðið meiri ef ekki hefði komið til þeirra. Í fyrra námu sektargreiðslurnar meira en ellefu milljörðum Bandaríkjadala.
Eins og sést á þessari mynd, frá innstæðutryggingasjóði Seðlabanka Bandaríkjanna, hafa bandarískir bankar verið að rétta úr kútnum eftir erfiðleikana 2008 og 2009.