Tæplega þrír af hverjum fjórum stjórnendum í íslensku atvinnulífi, eða 73,3 prósent þeirra, eru bjartsýnir á að hagkerfið muni vaxa næsta árið. Þeim stjórnendum sem bera þá bjartsýni í brjósti hefur þó fækkað síðan í sumar, þegar 81,1 prósent slíkra sagðist vera bjartsýnn á aukin vöxt. Bjartsýnin hefur hins vegar aukist mikið frá því í desember í fyrra þegar 58,9 prósent stjórnenda var bjartsýnn á að hagkerfið myndi vaxa næsta árið. Og þegar horft er enn lengur aftur í tímann, nánar tiltekið til aprílmánaðar 2011, hefur fjöldi þeirra sem er bjartsýnn nánast þrefaldast. Þá töldu einungis 27 prósent stjórnenda að bjart væri framundan í íslenska hagkerfinu næsta árið.
Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR á viðhorfi stjórnenda íslenskra fyrirtækja til horfa í íslensku hagkerfi sem og mikilvægra þátta í rekstrarumhverfi þeirra eigin fyrirtækja til næstu tólf mánaða. Könnunin fór fram á a tímabilinu 9. til 14. október 2014. Til stjórnenda teljast forstjórar, framkvæmda-, fjármála- og markaðsstjórar. Könnunin var netkönnun og 602 einstaklingar svöruðu henni.
Fáir búast við að starfsfólki muni fjölga
Í niðurstöðum MMR kemur einnig fram að tæplega sjö af hverjum tíu stjórnendum telji að launakostnaður fyrirtækja þeirra muni aukast, að eftirspurn eftir þeirri vöru og þjónustu sem fyrirtækin bjóða upp á muni aukast og að velta fyrirtækja þeirra muni aukast á næstu tólf mánuðum.
Rúmlega helmingur þeirra telur að arðsemi og samkeppnishæfni fyrirtækjanna muni aukast og um 45 prósent að markaðsstarf verði aukið næsta árið en einungis rétt tæpur þriðjungur telur að starfsfólki muni fjölga.